Í gærnótt voru 11 leikir í NBA. Þar á meðal áttust við tvö bestu lið NBA, Sacramento og Dallas. Nokkrir aðrir áhugaverðir leikir voru einnig og ætla ég að skrifa nokkur orð um leikina sem voru.
Philadelphia tók á móti New Jersey, sem hafði aðeins tapað 1 leik af síðustu 12, það er stórtapið gegn Sacramento. Philadelphia hefur gengið illa í síðustu leikjum og tapað 6 leikjum í röð og aðeins unnið 1 af síðustu 10 leikjum. Jafnræði var með liðunum í byrjun en í 2. leikhluta tók Philadelphia á rás, náði 13 stiga forustu í 2. leikhluta og voru með 10 stiga forustu í leikhlé. New Jersey minnkaði forustuna jafnt og þétt og í lokin var minnsti munur. Allen Iverson kom 76ers yfir 108-104 með 2 vítum en Harris negldi niður þrist í blálokin en það var ekki nóg og leikurinn endaði 108-107. Iverson var með 34 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar og 6 tapaði boltum en hitti illa, eða 11-25. Hjá New Jersey var Lucious Harris, sem er að spila hörkuvel í stöðu Kerry Kittles, sem var að stíga úr meiðslum. Harris skoraði 26 stig og hitti 10-17 og Kerry Kittles kom inn af bekknum með 14 stig og fengust því samanlagt 40 stig frá skotbakvörðum Nets. Jason Kidd mataði samherja sína með 16 stoðsendingum en hitti ömurlega, eða 4-21, og endaði með aðeins 9 stig. Kenyon Martin var með 24 stig, 16 fráköst og 9-17 í skotum.
LA Lakers unnu loksins útileik, gegn New Orleans. Kobe Bryant með hörkuleik, 36 stig, en hittnin 12-28. Shaq með 23 stig. Athygli vekur að báðir byrjunarframherjar liðsins, Rick Fox og Samaki Walker, voru með 10 stig samanlagt. Einnig er merkilegt að byrjunarleikstjórnandinn, Derek Fisher, sé aðeins með 2 stoðsendingar á 40 mínútum. Hornets byrjuðu vel en slakur 2. leikhluti gerði útslagið. Leikurinn fór 90-82 fyrir Lakers, sem voru ekkert sérstakir þrátt fyrir sigurinn.
Sacramento tóku á móti Dallas í toppslagnum. Sacramento er á mikilli siglingu og nýbúnir að kafsigla topplið New Jersey Nets í NJ. Eftir 1. leikhluta, staðan 39-26 fyrir Kings. Í hálfleik var staðan 62-42 fyrir Kings og leikurinn gott sem búinn. Sacramento náðu mest 29 stiga forustu. Chris Webber með hörkuleik, náði megaþrennu, 29 stig, 15 fráköst, 11 stoðsendingar og hitti 12-20. Stojakovic var með 6-9 í þristum og samanlagt 23 stig. Sacramento hitti 13-20 í þristum sem er ótrúleg nýting. Sacramento sótti enn að Dallas í seinni hálfleik og niðurstaðan, 123-94 fyrir Sacramento sem verða rosalega erfiðir í playoffs í svona ham.
Boston átti ekki í vandræðum með Atlanta sem eru enn án Glenn “Big dog” Robinson. Leikurinn fór 86-66 fyrir Boston. Paul Pierce með fínan leik, 28 stig og 9-16 í skotum. Leikstjórnenda vandræði Boston voru ekki vandamál í þessum leik þrátt fyrir meiðsli Tony Delks. J.R. Bremer lék í stað Delks og átti fínan leik.
Milwaukee unnu lánlausa, Vince Carter lausa og fámenna Toronto Raptors. Það sem er að vekja athygli núna hjá Toronto er bakvörðurinn Rafer Alston sem er á 10 daga samningi hjá þeim frá NBDL deildinni, sem er einskonar byrjunardeild fyrir NBA, neðri deild. Hann hefur spilað 4 leiki fyrir Toronto og hefur hitt ótrúlega vel. Toronto spiluðu nánast með 6 leikmenn og 2 sem spiluðu í örfáar mínútur. Meiðslalisti Toronto inniheldur auk Carters, Lindsey Hunter, Voshon Lenard, Hakeem og fleiri. Hjá Bucks var lítið um einstaklingsframtök, allir lögðu sitt í púkkið og uppskáru með því. Sam Cassel fremstur meðal jafningja með 19 stig.
Indiana unnu Miami án þess að svitna 104-81. Millerinn, Brad með 21 stig og 8-9 í skotum. Ron Artest með 18 stig og hörkuvörn að vanda. Millerinn, Reggie var sallarólegur, tók aðeins 3 skot, endaði með heil 2 stig og sleppti bara sturtunni eftir leikinn. Miami eru vægast sagt lélegir og það segir mikið þegar 4 af 5 byrjunarmönnum eru samanlagt með 18 stig!
Aðrir leikir enduðu:
Houston 102 – Phoenix 96, Mobley 30 stig og Marbury 32 stig
Glataðir Denver 81 – Gömlu Utah Jazzararnir 92, Hilario 24 stig og Harpring 17 og Malone 16
Portland 100 – Memphis 92, Wallace 38 stig, 10 fráköst og 16-20 í skotum og hinumeginn allir jafn sæmilegir með samanlögð 92 stig
LA “Geta þeir aldrei neitt???” Clippers 64 – Minnesota “Kevin Garnett” Timberwolves 95, Kevin Garnett 21 stig, 9 fráköst og 8-15 í skotum og Kevin Garnett með 6 stoðsendingar og 3 blokkuð skot.
Golden State 108 – Cleveland “lélegri en Valur” Cavaliers 80, Jamison 24 stig og 13 fráköst