Það var ekki að merkja nokkur hik eða hikst í leik Keflavíkurstúlkna í gær gegn KR í úrslitum Kjörísbikarsins. Liðið lék af sömu yfirvegun og baráttu og í allt haust og hafði yfirburði frá fyrstu mínútu. Allir leikmenn liðsins komu við sögu og skiluðu sínu hlutverki vel.
Eftir fyrsta leikhluta var forystan 9 stig, 16-7, en í öðrum leikhluta gerði Keflavík út um leikinn. Allt var sett á fullt í varnarleikinn og var þar Sonia í fararbroddi. KR stúlkur urðu hræddar og komust hvorki lönd né strönd. Keflavík keyrði einnig upp hraðann og hreinlega valtaði yfir andstæðinginn á þessum kafla. Öðrum leikhluta lauk 24-8 og staðan í hálfleik var því 40-15. Leiknum var í raun lokið og aðeins formsatriði að klára hann.
Enda var seinni hálfleikur frekar bragðdaufur. Keflavík gerði það sem þurfti til að vernda forskot sitt, jafnvel þó mesta harkan hafi horfið úr varnarleiknum. Forystan var plús/mínus 30 stig mest allan hálfleikinn og leikurinn endaði síðan með 26 stiga sigri Keflavíkur, 80-54.
Þar með hefur kvennaliði Keflavíkur tekist að vinna Kjörísbikarinn, en þetta var í þriðja sinn sem um hann var keppt. Keflavík hefur ávallt leikið til úrslita, en hafði ekki unnið áður. Til hamingju með það stúlkur! Við eigum von á myndum af sigurliðinu á næstu dögum.
Það má því með sanni segja að Keflavík sé Kjörísbærinn í ár, enda Keflavík Kjörísmeistari bæði karla og kvenna
Stuðst við grein með leyfi frá Keflavík.is
Kveðja Ludo