Fimm sekúndur lifðu af leiknum þegar Darryl Lewis misnotaði síðara vítaskot sitt í stöðunni 72-74 fyrir Grindavík. Páll Axel sló boltann út af og Keflavík átti innkast. Boltinn fór strax í hendurnar á Damon sem bar boltann upp völlinn með nokkru hraði. Guðjón Skúla beið í horninu, en hans var vandlega gætt af Guðlaugi Eyjólfssyni. Damon nálgaðist þriggja stiga línuna með Pál Axel á hælum sér þegar hann stöðvar, stekkur upp og lætur vaða. Svissss! Boltinn smellur í körfunni, 3ja stiga karfan er góð og leikurinn er úti. 75-74 fyrir Kef. Hvílíkur endir! Keflavík hefur endurheimt titil hinna fjögurra fræknu og er Kjörísmeistari ársins 2002, en þetta er í fjórða skipti sem titillinn kemur til Kef, hin þrjú árin voru jafnframt þrjú fyrstu ár keppninnar, 1996, 97 og 98.
Leikurinn var ótrúlega spennandi síðustu 10 mínúturnar, en engu líkara var en að Keflvíkingar færu hægt og rólega á taugum. Forystan hafði mest verið 16 stig og var 11 stig við upphaf síðasta leikhlutans. En allur hraði og öll áræðni hvarf sem dögg fyrir sólu og Grindvíkingar gengu á lagið og söxuðu á forskotið, hægt og bítandi. Verulega fór um keflvíska stuðningsmenn sem töldu að sagan frá síðasta föstudegi væri að endurtaka sig, þegar Grindavík sneri leiknum við á síðustu mínútunum. Grindavík komst meira að segja 3 stig yfir, en tveir þristar frá hetjunni Damon Johnson skiptu sköpum í leiknum.
Keflvíkingar hófu þennan leik á sömu nótum og gegn KR í gær. Varnarleikurinn var stífur og sóknin hröð. Það verður hins vegar að segjast að okkar menn réðu ekkert við Lewis sem skoraði 35 stig. En vel tókst að loka á aðra leikmenn og Keflavík byggði upp gott forskot. Í 30 mínútur léku Keflvíkingar eins og þeir sem valdið hafa og voru áberandi betri en Grindavík. Damon var góður, en auk hans var Jonni geysiöflugur og Gunni Einars og Magnús sýndu góðan leik. Enn og aftur sannast hve langt er hægt að fara á góðum varnarleik, jafnvel þótt sóknin bregðist.
Síðan hrundi leikurinn, en við höfum jú Damon sem sýndi enn og aftur snilli sína með því að tryggja okkur sigur á síðustu sekúndu leiksins. Karfan var ævintýraleg og með þeim flottari sem sést hafa í íslenskum körfubolta lengi. Enn skemmtilegra var að hún gerðist í úrslitaleik í beinni útsendingu.
Kveðja Ludo
P.s fékk leyfi fyrir að styðjast við grein á Keflavik.is þetta er EKKI ritstuldur!!!