KSÍ og Skjaldborg hafa gert með sér samkomulag um viðauka í bókina Íslensk knattspyrna 2001, þannig að bókin innihaldi öll úrslit leikja sem fram fóru á vegum KSÍ á árinu 2001. KSÍ mun jafnframt kynna bókina innan sinna vébanda og kaupa eintök fyrir aðildarfélög sín.
Bókin Íslensk knattspyrna er öllum áhugamönnum um knattspyrnu að góðu kunn, enda traust heimild um íslenska knattspyrnu. Í bókinni er fjallað um allt sem gerðist í íslenskri knattspyrnu á árinu 2001. Frásagnir af öllum leikjum í Símadeild karla og kvenna og fjallað um allar deildir og flokka á Íslandsmótinu, Coca-Cola bikarinn og bikarkeppni yngri flokka, landsleikina, Evrópuleiki félagsliða, atvinnumennina erlendis og margt fleira. Bókin er ríkulega myndskreytt, en í henni eru á þriðja hundrað myndir úr lekjum og af einstaklingum og liðum.