Knattspyrnusamband Evrópu hefur gefið út nýja röðun í styrkleikaflokka fyrir undankeppni EM 2004. Dregið verður í riðla í Portúgal 25. janúar næstkomandi, en þar verður lokakeppnin einmitt haldin. Nú er ljóst að Ísland hefur hækkað um einn styrkleikaflokk frá því sem áður var, er nú í 3. flokki, sem þýðir að möguleikarnir á að komast í lokakeppni stórmóts aukast til muna.
Íslenska landsliðið er í 53. sæti á styrkleikalista FIFA, sem gefinn var út í dag, og hækkar því um eitt sæti frá því listinn var síðast gefinn út. Helstu tíðindin af listanum eru sennilega þau að Argentína hefur loksins komist upp fyrir Brasilíu í 2. sætið eftir gott gengi þeirra fyrrnefndu en slakt gengi þeirra síðarnefndu í undankeppni HM. Frakkar eru sem fyrr efstir, eru enn nokkuð langt á undan öðrum liðum.