Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) hefur endurskoðað reglugerð sína um félagaskipti og stöðu leikmanna. Reglugerðin tók gildi 1. september sl. Reglugerðin boðar miklar breytingar á fyrri reglum og samningsumhverfi leikmanna. KSÍ hefur í dag sent bréf til aðildarfélaga sinna með upplýsingar um málið.
Breytt reglugerð
Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) hefur endurskoðað reglugerð sína um félagaskipti og stöðu leikmanna. Reglugerðin tók gildi 1. september sl. Reglugerðin boðar miklar breytingar á fyrri reglum og samningsumhverfi leikmanna.
Það er ekki hægt að segja að aðildarlönd FIFA hafi haft mikinn tíma til að undirbúa breytingar þær sem orðið hafa á reglugerðinni eða til að túlka þær. Henni var breytt eftir samkomulag FIFA og Evrópusambandsins (EB) sem gert var með með aðstoð Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA). Þessi niðurstaða er afleiðing langvarandi togstreitu ofangreindra aðila um gildi samninga knattspyrnumanna og sérstöðu knattspyrnunnar sem vinnumarkaðar, sem fylgdi í kjölfar Bosman-dómsins.
KSÍ hefur falið milliþinganefnd sem hefur eftirlit með félagaskiptum og samningum leikmanna að fara með málið og undirbúa tillögur fyrir næsta ársþing KSÍ. Það er ljóst að ýmis ákvæði reglna FIFA eru bindandi fyrir KSÍ og hafa áhrif á reglugerð KSÍ um félagaskipti annars vegar og hins vegar reglugerð KSÍ um samninga og stöðu félaga og leikmanna. Nefndina skipa þeir Lúðvík S Georgsson, formaður, Árni Óðinsson, Björn Guðbjörnsson, Jón Vigfússon og Páll Bragason. Starfsmaður nefndarinnar er Birkir Sveinsson.
Á fyrsta fundi nefndarinnar var ákveðið að senda aðildarfélögum KSÍ fyrstu upplýsingar um nýjar reglur FIFA í stuttu máli til þess að kynna helstu efnisatriði þeirra. Þá skal aðildarfélögum bent á að finna má reglugerðina í heild sinni á heimasíðu FIFA (www.fifa.com) undir Publications (FIFA Regulations for the Status and Transfer of Players, Regulations governing the Application of the Regulations for the Status and Transfer of Players og Circular no. 769).
KSÍ vill sér í lagi vekja athygli á eftirfarandi ákvæðum í reglugerð FIFA:
“Verndun ungra leikmanna”
Alþjóðleg félagaskipti leikmanna yngri en 18 ára verða aðeins leyfð í undantekningatilvikum. Ef fjölskylduástæður valda því, eða ef (innan EB/EES) vinnulöggjöf landanna er jafnframt uppfyllt og nýja félagið býður upp á fullnægjandi menntun með þjálfun, samkvæmt “Code of Conduct (CoC)” sem knattspyrnuyfirvöld þurfa að móta. Sama gildir um fyrstu skráningu leikmanns af öðru ríkisfangi en sambandið sem hann sækir um skráningu hjá.
Skyldur FIFA og UEFA að móta CoC, og skyldur sambands að fylgja þeim leiðbeiningum. Sömuleiðis algjört bann á félagaskipti leikmanna yngri en 18 ára frá löndum utan EB/EES, nema af fjölskylduástæðum. Refsiheimildir sambands tengdar þessu gegn félögum og umboðsmönnum og heimildir FIFA að grípa í taumana. Ákvæði um möguleika á áfrýjun til gerðardóms/áfrýjunarnefndar (Arbitration Tribunal for Football - TAF).
“Uppeldisbætur” fyrir þjálfun og menntun leikmanna að 23 ára aldri sem geiðast uppeldisfélögunum við félagaskipti þessara yngri samningsleikmanna við lok samnings sem er frávik frá Bosman-dómnum.
Skilgreint er að þjálfun og menntun leikmanns nái yfir aldurstímabilið 12-23 ára, þ.e. uppeldisbætur skulu greiddar upp að 23 ára aldri, fyrir uppeldi að 21 árs aldri, nema fullvíst sé að leikmaður teljist hafa náð fullum þroska fyrr. Bætur skulu greiðast til fyrri félaga þegar leikmaður skrifar undir fyrsta leikmannssamning sinn og síðan í hvert skipti sem leikmaður skiptir um félag upp að 23 ára aldri. Upphæð og nánari reglur um bætur og dreifingu þeirra til fyrri félaga eru skilgreind í reglugerðinni. Ef félagaskipti eru í framhaldi af því að samningstími er liðinn, þá er ekki hægt að krefjast frekari bóta en hér eru skilgreindar fyrir leikmann. Loks er sagt að bætur, sem tilheyra félagi sem á kröfurétt en er ekki lengur við líði eða finnst ekki, skuli renna til knattspyrnuuppeldismála. Engar uppeldisbætur fást fyrir eldri leikmenn en 23 ára. (Bosman-dómurinn í fullu gildi).
Skilgreint er að uppeldistímabil hefjist með upphafi þess keppnistímabils þegar leikmaður verður 12 ára, nema að hann hefji knattspyrnuiðkun síðar, og ljúki á því tímabili sem hann verður 21 árs, þ.e. standi í 10 ár. Bætur skuli greiddar við fyrsta leikmannssamning og síðan við hver félagaskipti að 23 ára aldri (nema hann fái aftur áhugamannsréttindi og haldi þeim í 3 ár). Þó fær félag ekki bætur ef það riftir samningi án sanngjarnra orsaka (just cause). Bæturnar eiga að endurspegla kostnað við þjálfun frá 12 ára aldri. Félög fá bætur í hlutfalli við framlag sitt til þjálfunar og stöðu/flokk félagsins (sjá hér á eftir).
Öllum félögum skal skipt í fjóra flokka. Flokkur 1 inniheldur félög með hágæðaþjálfun, og nær yfir félög í efstu deild í stærstu knattspyrnulöndunum. Flokkur 2 nær yfir 2. deild í sömu löndum og félög í efstu deild í öðrum löndum með atvinnuknattspyrnu. Flokkur þrjú nær yfir 3. deild í sterkustu löndunum og 2. deild í öðrum löndum sem eru með atvinnuknattspyrnu. Loks nær flokkur 4 yfir lægri deildir í þessum löndum og félög í löndum þar sem áhugamennska ræður. Frávik frá þessu eru möguleg ef knattspyrnusamband hefur önnur sjónarmið. Þjálfunarkostnaður reiknast síðan sem kostnaður við uppeldi leikmanns, margfaldað með því hlutfalli sem fæst með því að bera saman fjölda þjálfaðra leikmanna við leikmenn sem fá leikmannssamning. Knattspyrnusamband skilgreinir á hverju ári flokk félaga, sem gildir í 12 mánuði og jafnframt hvað skal liggja til grundvallar útreikningi á þjálfunarkostnaði (samkvæmt leiðbeiningum FIFA), en er þó háð samþykki FIFA á niðurstöðunum. Þann grundvöll má endurskoða á tveggja ára fresti. Athugið að félög í sama flokki en í sitthvoru landi þurfa ekki að hafa sama þjálfunarkostnað. KSÍ mun þó skoða tölur frá nágrannalöndum til samanburðar.
Uppeldisbætur reiknast út með eftirfarandi í huga: Bætur til félags fyrir viðkomandi ár miðast við þann flokk sem félag leikmanns var í og síðan fjölda ára á bilinu 12-21 árs. Þó skal í öllum tilfellum flokka þjálfun á árunum 12-15 (4 ár) sem þjálfun hjá félagi í flokki 4. Almennt skal taka mið af kostnaði nýja félagsins, en ekki þess gamla, nema innan EB/EES (gildir fyrir Ísland) þar skal miða við gamla félagið (meginreglan er hagstæð fyrir þróunarlöndin). Fyrir leikmann sem fer til félags í hærri flokki, þá miðast bæturnar við meðaltal flokka félaganna tveggja. Fyrir leikmann sem fer til félags í lægri flokki, þá miðast bætur við lægri flokkinn. Fyrir leikmann sem fer til félags í flokki 4, þá greiðast engar uppeldisbætur. KSÍ setur og tilkynnir FIFA mörk fyrir uppeldisbætur flokkanna í upphafi keppnistímabils.
Uppeldisbætur sem fást fyrir leikmann, sem fer frá félagi í flokki 3 eða 4 og í félag í flokki 1 eða 2 skulu dreifast þannig, að þegar gamla félagið hefur dregið frá kostnað sinn, skal 75% af því sem út af stendur dreifast til allra félaga sem hafa komið að uppeldi leikmanns frá 12 ára aldri. Við skipti frá félagi í flokki 2 í félag í flokk 1, skal helmingur af umframgreiðslunni dreifast til allra uppeldisfélaga. Við félagaskipti milli félaga í sama flokki, skal 10% af upphæðinni dreifast til allra uppeldisfélaga. Fé sem ekki ratar til upprunafélags skal varið til knattspyrnu uppeldis af viðkomandi sambandi.
Greiðslur skulu fara fram eigi síðar en 30 dögum eftir að samningur hefur við undirritaður eða félagaskiptin skráð opinberlega. Nýja félagið er ábyrgt fyrir útreikningum á uppeldisbótum með aðstoð leikmanns ef nauðsyn ber til. FIFA getur gripið til aðgerða gegn félögum sem ekki standa sína plikt í þessu.
“Samstöðugreiðsla”
Ef samningsleikmaður skiptir um félag á samningstímabilinu eiga 5% af öllum félagaskiptabótum sem greiddar eru til fyrra félags að renna til uppeldisfélaga leikmanns, sem hann lék með á tímabilinu 12 til 23 ára, og skiptist í hlutfalli við tímann.
Dreifing á “samstöðugreiðslu” skal vera þannig (fyrirvari vegna reiknivillu FIFA) að fyrstu 4 árin hafi vægið 1 (eða gilda 5% af heildar upphæð) en hin 8 árin vægið 2 (eða 10%). Nýja félagið skal inna greiðsluna af hendi innan 30 daga frá því að félagaskiptin eru skráð. Það er einnig ábyrgt fyrir því að réttar upphæðir skili sér til réttra aðila. Félagaskiptanefnd FIFA getur gripið til viðurlaga ef þessu er ekki framfylgt.
Samningslengd
Samningur skal ná yfir minnst 1 ár og mest 5 ár (frávik ef landslöggjöf leyfir). Samningar verða að fylgja FIFA-reglugerðum og KSÍ-reglugerðum. Knattspyrnusamband skal eiga afrit af samningi og skrá hann. Leikmanni er algjörlega óheimilt að skrifa undir lengri samning en 3 ára áður en hann verður 18 ára.
Skráning leikmanna og félagakiptatímabil
Allir leikmenn skulu skráðir. Umskráningar (þ.e. félagaskipti) leyfilegar á tveimur sérstaklega skilgreindum tímabilum (gluggum) á ári, milli keppnistímabila og á miðju keppnistímabili. Leikmaður getur þó aðeins fengið eina umskráningu á ári, þ.e. ein félagaskipti á ári. Félagaskipti milli landa geta aðeins farið fram eftir að samband hans hefur gefið út alþjóðlegt flutningsskírteini.
Skylda sambanda að halda skrá yfir félagaskiptasögu leikmanns frá því ári sem hann varð 12 ára. Við félagaskipti skal fylgja leikmannspassi þar sem félagaskiptasaga hans kemur fram. Nánari skilgreining á félagaskiptatímabilunum gerir ráð fyrir að lengd þeirra sé um 6 vikur milli tímabila (ekki útilokað að fá lengra tímabil) en um 4 vikur á miðju tímabili. Síðara tímabilið er aðeins ætlað fyrir félagskipti af íþróttalegum ástæðum (strictly sport related reasons).
Lán
Fram kemur að lán (samnings-)leikmanns milli félaga teljist vera félagaskipti. Því þurfi alþjóðlegt flutningsskírteini að fylgja því. Félögin verða að gera innbyrðis samning vegna lánsins, og að loknu keppnistímabili fer leikmaður sjálfkrafa tilbaka og þá þarf einnig að fylgja flutningsskírteini. Í raun þýðir þetta að ef leikmaður er lánaður er hann fastur hjá nýja félaginu fram að næsta félagaskiptaglugga (á næsta keppnistímabili eða ári - fastur í 12 mánuði).
Hald (stability) samnings
Ef leikmaður sem er ekki orðinn 28 ára riftir samningi einhliða, án sanngjarnra orsaka (just cause) eða sanngjarnra íþróttalegra orsaka (sporting just cause), áður en 3 ár eru liðin, þá skal hann sæta viðurlögum og bætur greiðast. Ef hann er orðinn 28 ára þá gildir það sama fyrstu 2 ár samnings. Ef einhliða riftun (án sanngjarnra eða sanngjarnra íþróttalegra orsaka) er beitt eftir að 3/2 ár eru liðin af samningi, þá skal leikmaður ekki sæta viðurlögum (banni), hins vegar er hægt að beita félag eða umboðsmann viðurlögum fyrir að hvetja til slíks. Félagið getur hins vegar krafist bóta (félagaskiptagjalds). Einhliða riftun vegna sanngjarnra orsaka sbr. á undan, er þó óheimil meðan keppnistímabilið stendur yfir.
Bætur nýs félags (eða leikmannsins sjálfs) til gamla félagsins vegna riftunar samnings skulu taka mið af fyrri samningi leikmanns, hve langt samningstímabil var eftir, kostnaði gamla félags vegna leikmanns og hvort minna en 3/2 ár eru liðin af samningi o.fl.
Ef leikmaður riftir samningi í lok fyrsta eða annars (yngri en 28 ára) árs, skal hann fara í 4 mánaða leikbann frá upphafi næsta keppnistímabils. Riftun samninga eftir lengri tíma hefur ekki í för með sér leikbann. Við endurtekna riftun eða aðrar alvarlegar kringumstæður getur bannið lengst í 6 mánuði. Félag sem riftir einhliða samningi við leikmann eða hvetur til einhliða riftunar (t.d. með því að gera samning við hann), sbr. 3/2 ár ofan, sætir viðurlögum og missir rétt á að fá nýja leikmenn skráða í 1 ár. Eftir það eru ekki viðurlög nema eðlilegrar tilkynningarskyldu hafi ekki verið gætt. Aganefnd FIFA getur gripið til frekari aðgerða gegn slíkum félögum. Áfrýjanir fara fyrir gerðardóm. Svipað gildir um umboðsmenn sem ýta undir riftun samninga.
Nánari skilgreiningar: Sanngjarnar íþróttalegar orsakir (SJC) teljast ef leikmaður hefur leikið minna en 10% leikja á keppnistímabili sem var að ljúka. En ýmsar aðrar aðstæður verða teknar með í dæmið, svo sem meiðsli, leikbönn, staða (varamarkmaður), aldur o.s.frv. Félagi, sem hefur áhuga á að ræða við samningsbundinn leikmann, ber að tilkynna slíkt formlega til bæði samningsfélags og leikmanns áður en viðræður geta hafist, ella sæta þungum viðurlögum.
Bætur vegna samningsrofa og greiðsla þeirra
Sá sem er ábyrgur fyrir samningsriftun skal greiða viðeigandi bætur, innan mánaðar ella sæta agaviðurlögum frá Félagaskiptanefnd FIFA. Áfrýjun fer fyrir gerðardóm. Ef leikmaður stendur ekki skil á bótum, þá telst nýja félagið ábyrgt, og skal standa skila á þeim innan næsta mánaðar ella sæta viðurlögum, sbr ofan.
*****
Fylgiskjöl samninga
Aðildarfélög KSÍ skulu minnt á að frá og með 1. janúar 2002 tekur gildi nýtt ákvæði um skráningu leikmannssamninga. Afrit af öllum fylgiskjölum samninga skulu fylgja þeim til skráningar eftir þann tíma. Stjórn KSÍ mun kynna félögum síðar í haust hvernig staðið verður að vörslu fylgiskjalanna og skipa sérstakan trúnaðarmann um vörslu þeirra þannig að fyllsta trúnaðar og öryggis sé gætt.
Ábendingar
Aðildarfélögum, sem vilja koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum til milliþinga-nefndarinnar vegna reglugerða KSÍ sem fjalla um félagaskipti og samninga, er bent á að hafa samband við Birki Sveinsson (birkir@ksi.is) á skrifstofu KSÍ.
Að lokum skal félögum bent á að kynna sér vel reglur FIFA, sér í lagi félögum í efstu deildum. Ef félög óska geta þau fengið afrit af reglum FIFA (á ensku) á skrifstofu KSÍ. Það er í raun nauðsynlegt að kynna sér reglurnar í heild (ensku útgáfuna) til þess að fá betri skilning á ofangreindri umfjöllun sem er mjög stutt og alls ekki tæmandi. Þá skal þess getið að fjölda spurninga um túlkun á þessum reglum er ósvarað af FIFA og ljóst að nokkur tími mun líða áður en þeim verður svarað. Milliþinganefndar bíður nú sú vinna að samræma reglugerðir KSÍ að breyttum reglum FIFA og leggja fram tillögur um slíkt á næsta ársþingi KSÍ sem haldið verður 9. og 10. febrúar nk.
Með kveðju,
Geir Þorsteinsson,
framkvæmdastjóri.