Íþróttafélagið Fram þarf ekki á þessum samruna að halda vegna fjárs og aðstöðu. Fram hefur nú þegar verið úthlutað stóru svæði til uppbyggingar í Úlfársdal þar sem á að koma á fót einni bestu aðstöðu íþróttafélags á landinu, einnig stóð það til að leggja völl, sem yrði nýr heimavöllur félagsins eftir nokkur ár.
Fram er komið töluvert lengra í framkvæmdaundirbúning heldur en Fjölnir. Fjölnir myndi græða meira pláss og betri aðstöðu ef þetta á sér stað. Á hinn bóginn, þegar Fram flytur um hverfi, þarf félagið að byggja upp nýtt unglingastarf frá grunni. Fjölnir hefur nú þegar 10 stórar deildir sem Fram myndi hagnast á.
Það er viss fjárhagslegur hagnaður á bak við samrunan en það þarf enginn að segja mér það að Steinar Þór sé búinn að kanna alla aðra möguleika Fram og að þetta sé eina leiðin til að bjarga félaginu.
Það er hinsvegar ekki hægt að réttlæta þennan samruna í augum þeirra stuðningsmanna sem hafa lagt líf sítt í félagið (bæði félög) og hafa eytt óteljandi stundum í að styðja og byggja upp þetta íþróttafélag.
Eins og ég tók fram hér að ofan, ég er fæddur og uppalinn Frammari og ég mun aldrei, meðan ég lifi, styðja annað íþróttafélag á Íslandi. Knattspyrnulega séð, hérlendis, lifi ég eftir fyrstu tveimur greinum í lögum og reglugerðum Knattspyrnufélags Fram.
1. grein
Heiti og markmið
Félagið heitir Knattspyrnufélagið FRAM. Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Merki og búningur
Merki félagsins er skjaldmynd, fótknöttur á hvítum grunni, umritaður nafni félagsins í bláum stöfum.
Búningur félagsins er blá treyja, hvítar buxur og bláir og hvítir sokkar.
Ef þessu verður breytt, þá er félagið ekki lengur hið sama. Og þar með er ég ekki lengur stuðningsmaður þess.
Auðvitað væri það fjárhagslega fýsilegt að félögin myndu sameinast undir merkjum Fram. Fram er stærra félag, Fram hefur merkari sögu og Fram eru töluvert stærri söluvara heldur en Fjölnir. Hinsvegar sé ég ekki Fjölnismenn styðja slíka tillögu, og skil ég það mjög vel. Ekki myndi ég gera það sjálfur.
Eins og flestir Frammarar sem hafa tjáð sig um þetta mál, þá er ég algjörlega á móti og, svo ég endurtaki sjálfan mig, mun ég aldrei styðja annað félag en Knattspyrnufélagið FRAM sem leikur í bláum treyjum, hvítum stuttbuxum og bláum og hvítum sokkum.