Nicolas Anelka skýrði frá því í gær að hann hefði mikinn áhuga á að verða seldur til Liverpool strax. Hann sýndi loks sitt rétta andlit í síðasta leik og með þessu áframhaldi þá ætti að verða gagnkvæmur hugur á því máli.
Eins og flestir vita væntanlega, þá er Anelka aðeins á lánssamningi út þetta tímabil, en Liverpool hefur forgangsrétt á að kaupa hann að þeim tíma loknum. Anelka og Owen náðu virkilega vel saman í síðasta leik og gefur það góðs viti fyrir framhaldið.
Anelka hafði þetta um málið að segja: “Ég er hérna aðeins að láni, en ef mér byðist að skrifa undir hjá liðinu í dag, þá myndi ég svo sannarlega gera það. Þegar ég frétti að ég hefði tækifæri á að ganga til liðs við Liverpool, þá gat ég bara ekki neitað því. Félagið er með frábæra leikmenn og ég var gríðarlega spenntur fyrir þeirri hugmynd að spila við hliðina á Michael Owen.
Ég er mjög ánægður að vera kominn aftur í enska boltann. Þegar ég fór frá Arsenal á sínum tíma, þá sagði ég aldrei að mér líkaði illa við England. Ég var mjög ungur þá og öll vandamálin voru í hausnum á sjálfum mér. Núna er ég búinn að öðlast mikla reynslu. Þú ert ekki alltaf á toppnum þegar ferill þinn er annars vegar. Stundum fara hlutirnir ekki eins og þú hefðir óskað. Þá þurfa menn á andlegum styrk að halda til að komast yfir svoleiðis tíma.”