Ásgeir Elíasson var í dag bráðkvaddur á heimili sínu. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera nemandi hjá Ásgeiri í íþróttum þegar ég var í 10. bekk árið 2004-2005. Maðurinn var ótrúlega hress, alltaf. Ég man að ég hlakkaði alltaf til að fara í íþróttir hjá honum. Eitt sinn áttum við að búa til áætlun fyrir okkur sjálf, hvað við ætluðum að gera í tímanum, og skila því síðan til hans. Á mína áætlun setti ég frekar fyndna mynd af Ásgeiri þar sem að myndavélin var mjög nálægt honum (finn því miður ekki myndina aftur). Þegar ég rétti honum blaðið fór hann að skellihlæja og sagðist alltaf eiga eftir að muna að blaðið væri frá mér, þegar ég sagði honum að það væri ómerkt.
Ásgeir var einnig sundkennarinn minn og ætli það sé ekki honum að þakka að ég get synt í kafi núna. ég hafði aldrei getað það þar til ég fór í tíma hjá Ásgeiri sem að ákvað eitt sinn að hleypa mér ekki uppúr lauginni fyrr en ég synti ákveðna vegalengd í kafi (sennilega um 20-30m). Þetta hefði mér sennilega ekki tekist ef það hefði ekki verið fyrir hann.
Það er með miklum söknuði sem að ég kveð Ásgeir Elíasson, einn mesta knattspyrnusnilling landsins, þó að ég muni helst minnast hans fyrir þær stundir sem ég átti með honum í íþróttum í Laugalækjarskóla.