Enskir fjölmiðlar gera því enn skóna að Arsenal sé að íhuga kaup á Árna Gauti Arasyni landsliðsmarkverði frá norska meistaraliðinu Rosenborg. Bresku blöðin hafa af og til í vetur birt fréttir um vangaveltur forráðamanna Arsenal um hugsanleg kaup á nýjum markverði og í gær kom fram á útvarpsstöð í London að Árni Gautur væri einn þeirra markvarða sem kæmi til greina. Greint var frá því að Arsenal ætti í vandræðum þar sem bæði David Seaman og Richard Wright væru á sjúkralistanum og forráðamenn félagsins væru því alvarlega að velta fyrir sér að kaupa nýjan markvörð.
Þrátt fyrir að tveir aðalmarkverðir Arsenal séu frá eru þrír markverðir til taks hjá Lundúnaliðinu. Hinn 21 árs gamli Stuart Taylor stóð á milli stanganna í leiknum gegn Manchester United um síðustu helgi og þá eru einnig á mála hjá liðinu Graham Stack, 20 ára, og hinn 17 ára Craig Holloway.

Árni Gautur segir í viðtali við norska blaðið Adressavisen í gær að hann hafi ekkert heyrt frá Arsenal og þessa dagana sé hann meira með hugann við námið en knattspyrnuna því hann sé á leið til Íslands um helgina til að þreyta próf í lögfræði.

ari218