Arabagengið sem er að spá í að kaupa Fiorentina segist ætla að eyða 125 milljónum punda í að bæta liðið. Ef gengið nær völdum verður Giancarlo Antognioni settur forseti félagsins. Vittoro Cecchi Gori hætti sem forseti félagsins síðasta sumar eftir að hann var sakaður um peningaþvætti. “Við erum að bíða eftir svari hans,” sagði Shahram Tootoonchi, talsmaður Arabanna.
Hópur Tootoochis var fyrstur til að sýna áhuga eftir að Cecchi Gori ákvað að segja af sér og fela Luciano Luna að finna kaupanda. Ekki hefur verið hægt að borga leikmönnum laun og félagið skuldar um 24 milljónir punda en Luna sagði í síðasta mánuði að vænlegur kaupandi hefði sett sig í samband og væntanlega yrði samið fyrir jól.
Talið er að hópur Ítala með Rómverjann Stefano Pulsone séu líklegastir en Pulsone fundaði með Cecchi Gori fyrir tveimur vikum. Tootoonchi er samt viss um að tilboð sitt sé afar gott. “Giancarlo Antognioni verður forseti og hann mun ákveða hverjir verða starfsmenn. Við bjóðum 35 milljónir punda strax og 125 milljónir punda næstu þrjú árin.”