Eins og staðan er í dag, þá er notast við séríslenskar reglur, þar sem þær eru frábrugðnar þeim sem notast er við á alþjóðlegum vettvangi.
Hins vegar stendur til að frá og með vetrinum 2007-2008 verði innanhússknattspyrnan á Íslandi spiluð með sama hætti og á alþjóðavísu.
Þessi tegund innanhússknattpyrnu sem um ræðir kallast Futsal og eru haldin Evrópumót og Heimsmeistaramót í þessari tegund knattspyrnu (eflaust eru álfumót í S-Ameríku, Asíu, Eyjaálfu og fleiri álfum, hef bara ekki kynnt mér það til hlýtar ennþá).
Þá má einnig geta þess að leikmenn eins og Ronaldinho og (brasilíski) Ronaldo komu upp í knattspyrnuna í gegnum Futsal.
Þeir sem eitthvað hafa fylgst með innanhússknattspyrnunni á Íslandi hafa eflaust tekið eftir því að veturinn 2004-2005 voru gerðar breytingar á reglunum hérlendis sem breyttu nokkrum atriðum sem voru að verða rótgróin í innanhússboltanum. Þessar breytingar voru gerðar með það að leiðarljósi að aðlagast smátt og smátt alþjóðlega innanhússboltanum.
Komandi vetur (2006-2007) liggur fyrir að keppnisfyrirkomulag yngri flokka í innanhússknattspyrnu verði með gamla sniðinu, auk þess að meistaraflokkur karla og kvenna muni að öllu jöfnu spila samkvæmt gamla kerfinu.
Þar að auki er stefnt að því að hafa 10 liða Futsal-deild sem mun virka sem nokkurskonar kynningarmót, þar sem áhugasamir geta fylgst með og séð hver munurinn er á íslenska innanhússboltanum og Futsal.
Með tilkomu Futsal í íslenska innanhússknattspyrnu verður unnt að senda lið í Evrópukeppni og með tímanum verður einnig hægt að senda landslið í undankeppnir Evrópu- og Heimsmeistaramóta.
Ástæðan fyrir því að þetta kemur fyrst á kork á þessu áhugamáli er sú að ég vildi byrja á því að kanna viðbrögð og áhuga fyrir því að fræðast um framtíðina í innanhússknattspyrnu á Íslandi.
Ef vilji er fyrir, þá mun það ekki verða mikið mál að senda inn grein þar sem munurinn á núverandi innanhússknattspyrnu og Futsal verður tilgreindur, án þess að farið sé of gróft yfir eða of lauslega.
Þar af leiðir þætti mér vænt um að fá skoðanir Hugara á núverandi innanhússknattspyrnunni sem leikin er og hvort áhugi sé fyrir því að fræðast meira um Futsal.
Bestu kveðjur til allra Hugara.
Kveðja,