Aðra helgina í röð verður sjónvarpsstöðin Enski boltinn að fella niður leiki kl. 14:00 á laugardegi að kröfu KSÍ. Nú vegna bikarúrslitaleiks karla. Skiljanlega hefur þetta valdið miklum pirringi hjá aðdáendum enska boltans. Enski boltinn hefur ítrekað reynt að fá KSÍ til að slaka á sínum kröfum en þeir hafa jafnan neitað. KSÍ hefur rétt skv. reglugerð FIFA á að blokkera sjónvarpsútsendingar frá erlendri knattspyrnu til að verja heimaboltann. Ef Enski boltinn fer ekki að þeirra tilmælum getum þeir lent í alvarlegum vandræðum með sjónvarpsrétt á enska boltanum.
Annars líst mér vel á yfirlýsingu frá stjórnum stuðninsklúbba hér á landi og tek heilshugar undir. Fók á að hafa val.
“Stjórnir stuðningsklúbba ensku félaganna á Íslandi skora á KSÍ að slaka á kröfum um að blokkera á sjónvarpsútsendingar frá ensku knattspyrnunni á laugardaginn 24. september vegna bikarúrslitaleiks Vals og Fram.
Hvað með fólk sem hefur engan áhuga á þessum bikarúrslitaleik? Þarna etja kappi tvö félög sem eiga stuðningsmenn sem eru aðeins brot af þeim fótboltaáhugamönnum sem til eru á Íslandi. Hvernig er með fólk á landsbyggðinni sem hafa ekki tækifæri á að fara á völlinn. Á að reka alla þá sem hafa áhuga á knattspyrnu og ekki þessum tiltekna leik, beint á barinn? Reglur þær sem settar eru vegna þessa eru þess eðlis að knattspyrnusambönd hvers lands ráða þessu alfarið. Hver er skýringin á því að meina mönnum að horfa á fótbolta í sjónvarpinu? Hvað með unga fólkið sem hefur engan áhuga á þessum leik en vill horfa á boltann í sjónvarpinu? Á það að fara á barinn?
Þeir sem eru sannir Frammarar eða Valsmenn, þeir láta ekki enska boltann trufla sig við að fara á bikarúrslitaleikinn. Að okkar dómi hefur þetta engin áhrif á aðsókn á völlinn. Það er fyrst og fremst verið að beita forræðishyggju fyrir þá sem vilja sjá fótbolta í sjónvarpinu.”
KSÍ er risaeðla og ef þeir halda áfram með svona dónaskap við neytendur fá þeir það margfalt til baka.