Markvörðurinn Roy Carroll hefur gengið til liðs við nýliða West Ham í ensku úrvalsdeildinni og mun verja mark þeirra á næstu leiktíð. Carroll varði sem kunnugt er mark Manchester United í fyrra, en var gagnrýndur mikið fyrir klaufamistök og þótti ekki boðlegur sem lykilmaður í jafn stóru liði.
Mikil ánægja ríkir í herbúðum West Ham yfir komu hans og þar á bæ telja menn sig vera komnir með framtíðarmarkvörð. “Roy á bestu ár sín eftir og við höfum fulla trú á honum og fögnum því að vera komnir með markvörð sem við getum treyst fyrir átökin í úrvalsdeildinni,” sagði talsmaður West Ham.