Robbie Fowler fyrirliði Liverpool hefur svarað gagnrýnendum Liverpool með því að benda á nokkrar staðreyndir sem ekki verða hraktar. “Liverpool hefur fengið sinn skerf af gagnrýni á leiktíðinni. Sumir sem hafa staðið fyrir þeirri gagnrýni þurfa nú að éta margt að því sem þeir sögðu ofan í sig. Liverpool vann þrjá bikara og náði þriðja sæti í deildinni. Að auki lögðum við erkifjendur okkar Everton og Manchester United að velli bæði heima og að heiman. Mér er sagt að Liverpool hafi ekki gert það fyrr á sömu leiktíðinni. Liðið skoraði 127 mörk á tímabilinu og Liverpool hefur aðeins tvívegis skorað fleiri mörk á sömu leiktíðinni í sögu félagsins. Það er mikið afrek að skora svona mörg mörk. Sérstaklega er það mikið afrek hjá liði sem að sagt er að beiti aðeins skyndisóknum. Mér er alveg sama hvað menn segja um Liverpool. Hver og einn hefur sína skoðun. En þegar upp er staðið er niðurstaðan sú að okkur tókst að ná þeim markmiðum sem við stefndum að í deildinni og að auki unnum við þrjá bikara. Þessi afrek verða ekki tekin frá okkur!”

tekið af liverpool.is