“Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri Skjás eins, er farinn til Bretlands til að skrifa undir samninga um útsendingar frá enska boltanum. Snorri Már Skúlason hefur verið ráðinn verkefnastjóri.
Bindandi samkomulag var undirritað fyrir nokkru en tafir hafa orðið á lokaundirskrift. Magnús Ragnarsson segir að það sé vegna þess að úrvalsdeildin enska hafi í þetta skiptið samið sjálf við rétthafa, milliliðalaust. Samið sé við alla aðila í einu ferli og slíkt hafi tafið málið. Samningurinn er því staðlaður og sem dæmi nefnir hann að í honum séu ákvæði vegna veru breskra hermanna í Írak sem vissulega snerti Skjá einn ekki.
Skjár einn ætlar að að senda einhverja leiki út með lýsingum enskra þula. Í útvarpsréttarlögum segir að efni þurfi ekki að texta eða endursegja þegar dreift er viðstöðulaust fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Tilgreint er þó að við þær aðstæður skuli sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku. Þetta ákvæði á þó ekki við um endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva, eins og þegar sjónvarpsstöðvarnar endurvarpa SKY og CNN á stríðstímum.
Skjár einn mun því láta reyna á túlkun útvarpslaganna. Stóru leikirnir á laugardögum og sunnudögum verða hins vegar með íslenskum þulum. Alls verða sex leikir sendir út á viku - þrír á laugardögum, tveir á sunnudögum og einn á mánudagskvöldi, og kemur til greina að senda hann út með smá seinkun til að riðla ekki dagskrá stöðvarinnar um of.
Fyrsti leikurinn í ensku úrvalsdeildinni verður 14. ágúst. Snorri Már Skúlason, kynningarfulltrúi Þjóðminjasafnsins og fyrrverandi umsjónarmaður Íslands í dag á Stöð 2, hefur verið ráðinn til Skjás eins til hafa yfirumsjón með verkefninu.”
Samkvæmt þessu verða einhverjir leikir með enskum þulum, sem verður gaman að sjá. Einnig sýnist mér þeir ætla að hafa alla leiki á skjáeinum, samkvæmt þessari setningu: “… og kemur til greina að senda hann út með smá seinkun til að riðla ekki dagskrá stöðvarinnar um of.”
Persónulega vona ég að sömu þulir verði og lýstu enska boltanum á Sýn í vetur, þeir eru allavega betri en Samúel Örn og félagar ;)
32 dagar í fyrstu útsendingu! :D