Tryggvi Guðmundsson varð næstmarkahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu sem lauk í dag. Tryggvi skoraði tvívegis fyrir Stabæk sem vann Moss, 7-2, á útivelli og gerði samtals 15 mörk í deildinni, tveimur minna en Harald Brattbakk sem skoraði einnig tvö mörk þegar Rosenborg sigraði Brann, 5-0. Eftir þetta getur Atli Eðvaldsson ekki litið framhjá stráknum. Þá skoraði Bjarni Þorsteinsson eitt marka Molde sem gerði jafntefli, 3-3, við Sogndal.
Teitur Þórðarsson og lærisveinar hjá Brann eru enn ekki fallnir úr deildinni þrátt fyrir skellinn gegn Rosenborg því Moss varð að vinna Stabæk til að komast uppfyrir Brann. Moss er því fallið ásamt Guðjóni Þórðarssyni og félögum í Start, sem töpuðu 0-3 fyrir Bodö í dag. Brann endaði í þriðja neðsta sæti og leikur því tvo aukaleiki við Sandefjord, þriðja lið 1. deildar, um sæti í úrvalsdeildinni á næsta ári. Árni Gautur Arason markvörður og hans lið, Rosenborg, hafði þegar tryggt sér meistaratitilinn og hlaut 56 stig. Molde varð í öðru sæti með 50 stig og Lyn, sem tapaði 0-1 fyrir Viking í dag, hafnaði í þriðja sætinu með 47 stig.