Hilmar Björnsson kominn heim Hilmar Björnsson hefur tekið samningstilboði KR og mun leika með liðinu á næstu leiktíð. Hilmar er fjórði nýi leikmaðurinn sem KR gerir samning við á stuttum tíma, hinir eru Scott Ramsey, Garðar Jóhannesson og Kristján Örn Sigurðsson. Hilmar er fæddur árið 1969 og lék með KR út árið 1997 en þá fór hann utan í atvinnumennsku í Svíþjóð og Noregi. Hilmar gekk til liðs við Fram árið 1999 og FH árið 2001, en þar var hann fyrirliði í sumar og lék í stöðu bakvarðar. Hilmar hefur tvö ár í röð verið valinn í lið ársins á lokahófi KSÍ.

Allt útlit er fyrir að lið KR styrkist töluvert fyrir næstu leiktíð. Á hinn bóginn er enn ósamið við nokkra fastamenn liðsins undanfarin ár, þar á meðal framherjann Sigurð Ragnar Eyjólfsson, sem var markhæsti maður liðsins síðastliðið sumar og skoraði 11 mörk. Það kemur því í ljós á næstu dögum hvort KR-ingar eru í raun að styrkja hóp sinn eða hreinlega að fylla upp í skörð sem verða í núverandi hóp. Nú þegar hefur miðvallarleikmaðurinn Þorsteinn Jónsson lagt skóna á hilluna.