U19 landslið karla tapaði í dag síðasta leik sínum í undankeppni EM, 1-2 gegn Skotum. Ísland náði forystunni á 4. mínútu með marki Rannvers Sigurjónssonar, en Skotar jöfnuðu úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Skoska liðið missti síðan mann út af um miðjan síðari hálfleik og voru tveimur færri þegar þeir skoruðu sigurmarkið á 87. mínútu, en öðrum leikmanni þeirra hafði verið vísað af leikvelli skömmu áður. Ótrúlegt að íslenska liðið náði ekki að nýta sér liðsmuninn en það er áhuggjuefni að í hinum tveimur leikjunum spilaði Ísland líka einum manni fleiri án þess að ná að notfæra sér það. Ísland hlaut því ekkert stig í riðlinum, en Slóvenar og Júgóslavar halda áfram í næstu umferð.
Strákarnir okkar töpuðu fyrsta leik gegn Júgóslövum, sem sigruðu 3-1. Tveir leikmanna Júgóslavíu fengu að líta rauða spjaldið og einn Íslendingur, Jóhann Helgason. Júgóslavía náði þriggja marka forystu áður en Leiknismaðurinn Magnús Már Þorvarðarson minnkaði muninn fyrir Ísland á 90. mínútu. Tveimur dögum síðar tapaði U19 landsliðið 1-2 gegn Slóvenum. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en heimamenn náðu forystunni skömmu áður en flautað var til leikhlés. Í upphafi síðari hálfleiks var einum leikmanni Slóvena vísað af leikvelli, en þrátt fyrir það tókst þeim að gera annað mark áður en Bjarni Hólm Aðalsteinsson frá Fram minnkaði muninn.