Spá mín fyrir síðustu helgi gekk vægast sagt illa eftir, 2 rétt úrslit og engar réttar tölur! Það þýðir samt ekkert að leggja árar í bát og ég held því ótrauður áfram að spá í leiki deildarinnar og hér á eftir fylgir spá mín fyrir næstu umferð.

Everton 2-1 Chelsea
Chelsea gengur bara ekkert á útivelli á meðan Everton er að gera ágæta hluti á heimavelli. Bæði lið ná að skora en sigur Everton verður þo öruggari en tölurnar gefa til kynna.

Charlton 3-2 Sunderland
Charlton hefur komið á óvart og gengið mjög vel á heimavelli. Sunderland er hins vegar með bullandi sjálfstraust eftir útisigurin gegn Newcastle í síðustu umferð. Þetta verður því hörkuleikur sem endar að öllum líkindum með sigri Charlton.

Coventry 1-2 Aston villa
Coventry er nú búið að tapa 5 leikjum í röð og er farið að lengja í sigur en Aston Villa hefur hins vegar ekki tapað tveimur leikjum í röð á leiktíðinni og lítil hætta á að þeir fari að taka upp á því nú.

Derby 1-3 Man.utd
Hér mætast einu liðin sem náðu þeim árangri að vinna leiki sína í síðusu umferð eftir að ég hafði spáð þeim sigri. Derby er nú búið að halda hreinu tvo leiki í röð og líklega búnir með kvótann í bili. ManU virðist alltaf gera það sem þarf til að vinna leikina og ófáir leikirnir sem þeir hafa unnið 3-1 eftir að andstæðingurinn nær að jafna í 1-1 (t.d. ManU - Panathinaikos á þriðjudaginn og ManU-PSV fyrr í vetur!)

Man.city 1-1 Ipswich
Ipswich heldur áfram að koma á óvart og sigruðu Coventry í síðasta leik með marki á síðustu mínútu leiksins. Þeir eru nú búnir að vinna tvo leiki í röð og eru enn eina liðið sem hefur skorað í öllum leikjum sínum á tímabilinu. Man.city er hins vegar búið að tapa 4 leikjum í röð og kominn tími á að þeir fari að hala inn einhver stig á ný.

Middlesbrogh 2-0 Bradford
Báðum liðum hefur gengið illa það sem af er en Bradford sýnu verr. Þeir hafa aðeins náð í eitt stig á útivelli í vetur og eru með markatöluna 1-16. Það sem meira er þá hafa 4 af 7 útileikjum þeirra endað 2-0 fyrir heimaliðinu. Middlesbrough hefur reyndar enn ekki unnið á heimavelli í vetur en einhvern tímann verður allt fyrst og ég hallast frekar að því að 'boro byrji að vinna á heimavelli frekar en að Bradford taki upp á því að fara að vinna á útivelli.

Southampton 2-2 West ham
Bæði lið á ágætri siglingu. Southampton hefur leikið 3 leiki í röð án taps og West ham 4. Southampton er búið að vinna síðustu 2 heimaleiki sína en West ham hefur hins vegar ekki tapað í síðustu 4 útileikjum. Ég hallast því að jafntefli í þessum leik.

Tottenham 1-2 Leicester
Tottenham er með árangurinn 6-1-0 á heimavelli á meðan Leicester er með 4-2-1 á útivelli. Leicester er hins vegar að gera frábæra hluti undir stjórn Taylors og ég hallast að því að þeim takist að verða fyrstir til að vinna Tottenham á White Hart Lane. Leicester hefur líka harma að hefna frá því í úrslitum deildarbikarsins á síðustu leiktíð.

Leeds 1-3 Arsenal
Eftir tvo leiki í röð án sigurs í deildinni er Arsenal orðið 5 stigum á eftir ManU á toppnum og þeir hreinlega verða að vinna þennan leik ætli þeir sér að halda í vonina um titilinn. Leeds hefur líka gengið illa upp á síðkastið og þeir verða að spila mun betur en þeir gerðu í gær gegn Madrid ef þeir ætla sér að standa uppi í hárinu á Arsenal.

Newcastle 2-3 Liverpool
Ég er of mikill Liverpool fan til að geta annað en spáð þeim sigri (mun kanski hætta því þegar kemur að leiknum við ManU á Old Trafford). Leikir þessara liða undanfarin ár hafa verið hin besta skemmtun og úrslitin verið 2-1, 4-3 og allt þar á milli. Þessi leikur verður engin undantekning og gæti allt eins endað með sigri Newcastle. Ég hef þó trú á að Emile Heskey eigi eftir að gera gæfumunin fyrir Liverpool í þessum leik og að þeim takist að vinna aðeins sinn annan útisigur á leiktíðinni.
kv.