Fylkir heldur bikarnum í Árbænum Í dag fór fram úrslitaleikurinn í bikarkeppni KSÍ, Coca Cola bikarnum. Fram og Fylkir mættust í blíðskaparveðri í Laugardalnum og var leikurinn stórskemmtilegur. Öll umgjörð í kringum leikinn var líka eins og best verður á kosið. Það var fyrrum Framarinn Valur Fannar Gíslason sem kom Fylki yfir á 19.mínútu leiksins eftir sendingu Sverris Sverrissonar. Markið kannski ekki það fallegasta í sumar en mikilvægt var það. Seinna í fyrri hálfleiknum lifnuðu Framarar við eftir slæma byrjun. Þeir áttu m.a. hörkuskot í þverslána og Kjartan Sturluson sýndi snilldartilþrif í marki Fylkis. Sveitti gangavörðurinn Andri Fannar Ottósson jafnaði metin á 42. mínútu. Þorbjörn Atli Sveinsson gaf fyrir og Andri Fannar skallaði í stöngina af nokkurra sentimetra færi. Hann lenti í hliðarnetinu utanverðu, hékk í því og náði að renna boltanum yfir línuna úr þeirri stöðu. Skondið mark og staðan 1-1 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum byrjuðu Framarar mun betur og virtust vera að ná undirtökunum. Þeir fengu nokkur mjög góð marktækifæri sem nýttust þeim ekki. Sverrir Sverrisson kom síðan Fylki yfir gegn gangi leiksins þegar hann skallaði í netið eftir aukaspyrnu þegar leikið hafði verið í tíu mínútur í síðari hálfleik. Theódór Óskarsson gerði þriðja mark Fylkis og tryggði Árbæingum bikarmeistaratitilinn, úrslitin 3-1 fyrir Fylki. Leikurinn var mjög skemmtilegur og bæði lið spiluðu góða knattspyrnu. Fylkismenn eru vel að titlinum komnir og var mikið fagnað í Árbænum þegar þeir komu með bikarinn í vörubíl. Þar með hefur Fylkir tvívegis orðið bikarmeistari: 2001 og 2002!

TIL HAMINGJU FYLKIR!