GÓÐ AÐSÓKN Í SUMAR
996 áhorfendur mættu að meðaltali á leiki Símadeildar karla í ár, sem er nokkru lægra en 2001, en þó næst mesta aðsóknin frá upphafi þar sem leikirnir í fyrra slógu öll aðsóknarmet. Áhorfendur í ár voru alls 89.660. Að venju komu flestir á KR-völl, 1.948, en fæstir áhorfendur voru að jafnaði á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum, 601. Sá leikur sem dró flesta að var viðureign Fylkis og KR á Fylkisvelli í 17. umferð, eða 4.833 manns. Fæstir mættu á leik Keflavíkur og KA, einnig í 17. umferð, eða 236.
—
FYLKIR - FRAM Á MORGUN KL.14:00
Fram og Fylkir mætast í úrslitaleik Coca-Cola bikars karla á Laugardalsvelli á morgun kl. 14:00. Fram hefur leikið 14 sinnum til úrslita í bikarkeppni KSÍ og sigrað 7 sinnum, síðast 1989. Fylkir lék hins vegar í fyrsta skipti til úrslita í fyrra við KA og hampaði þá bikarmeistaratitlinum eftir framlengingu og vítaspyrnuskeppni.
—
ARNÓR UMBOÐSMAÐUR
Tveir þreyttu próf til umboðsmanns knattspyrnumanna á skrifstofu KSÍ í gær. Prófið er samansett úr 15 erlendum spurningum og 5 íslenskum, en til að standast próf þurfa 66% svara að vera rétt. Annar próftakinn, Arnór Guðjohnsen, náði tilsettum lágmörkum og verður KSÍ-umboðsmaður þegar gengið hefur verið frá formsatriðum.
—
SCOTT RAMSEY Á FÖRUM
Scott Ramsey sem leikið hefur með Grindvíkingum undanfarin ár í Símadeildinni hefur komist að samkomulagi við félagið um að vera leystur undan samningi. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið sem lenti í 3. sæti deildarinnar í ár. Ramsey hefur þó mikinn áhuga á að leika áfram á Íslandi og hefst nú væntanlega barátta einhverra liða um þennan eitilharða miðjuköggul frá Skotlandi. Hef ég heyrt eitthvað um að Þróttur komi vel til greina hjá Ramsey… sel það þó ekki dýrt.
—
ÍSLAND - SKOTLAND: MIÐASALA HAFIN
Forsala miða á landsleik Íslands og Skotlands í Evrópukeppni landsliða sem fram fer á Laugardalsvelli 12. október er hafin og verður tvíþætt á Internetinu á heimasíðu KSÍ www.ksi.is og ESSO www.esso.is. Sölu lýkur að kvöldi þriðjudagsins 8. október og verða miðar afhentir á ESSO-stöð sem kaupandi hefur valið frá og með 10. október.
—