Í dag var seinasta umferðin í Símadeildinni leikin og var mikil spenna á toppi og botni. FH, Fram og Keflavík börðust við falldrauginn á meðan Fylkir og KR voru að berjast um bikarinn. Fyrir umferðina voru Keflvíkingar í fallsæti með verri markatölu en Fram og Fylkismenn sátu í efsta sætinu með stigi meira en KR. Það þýðir það að Fylkir hefði tryggt sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil með sigri.
Á Akranesi mættu Skagamenn til leiks gegn Fylki. Margir KR-ingar óttuðust það að ÍA myndi ekki leggja sig fram í þessum leik þar sem þeir höfðu að engu að keppa og eftir ummæli Ólafs Þórðarssonar þar sem hann sagðist vona að Fylkir yrði íslandsmeistari. Annað kom þó á daginn. ÍA fékk besta færi fyrri hálfleiks þegar Garðar Gunnlaugsson slapp einn í gegn en skaut framhjá. Markahæsti leikmaður deildarinnar í fyrra, Hjörtur Hjartarsson, kom ÍA í 1-0 og þeir fjölmörgu Fylkismenn sem á leiknum voru þögnuðu. Þremur mínútum eftir markið, nánar tiltekið á 56.mínútu, skoraði Grétar Rafn Steinsson annað mark Skagamanna. Alla baráttu vantaði í Fylkisliðið og gott dæmi um það er að liðið fékk aðeins eitt gult spjald í leiknum og það kom seint. Aðalsteinn Víglundsson þjálfari Fylkis fylgdist með sínum mönnum af áhorfendasvæðinu þar sem hann var í leikbanni. Þar upplifði hann það að Fylkir tapaði Íslandsmeistaratitlinum á lokasprettinum þriðja árið í röð. Gríðarleg vonbrigði í Árbænum.
KR-ingar tóku á móti Þórsurum sem voru fallnir fyrir leikinn. Þór var með vængbrotið lið þar sem marga lykilmenn vantaði, t.d. markahrókinn Jóhann Þórhallson sem er nú staddur í Danmörku. KR var komið í 2-0 eftir 20 mínútna leik en Veigar Páll Gunnarsson skoraði bæði mörkin. Eyjamaðurinn Sigurvin Ólafsson skoraði tvö næstu mörk og KR komið í 4-0 eftir 50 mínútur. Seinasta mark leiksins kom svo á 65.mínútu þegar Sigurður Ragnar Eyjólfsson skoraði. KR-ingar voru kampakátir með þennan glæsilega 5-0 sigur og eru þeir vel að titlinum komnir. Það má segja að Veigar Páll og Sigurður Ragnar séu mennirnir sem KR-ingum vantaði í fyrra. Þyrla með bikarnum lenti í Vesturbænum en hann var geymdur á Akranesi. TIL HAMINGJU KR!
Í Hafnarfirðinum mætti FH liði ÍBV og sigraði 2-0 með mörkum frá Atla Viðari Björnssyni og Jónasi Grana Garðarssyni. FH-ingar voru í fallhættu en unnu mikilvægan sigur. Margir bláklæddir Framarar voru meðal áhorfenda á Akureyrarvelli þar sem Fram mætti KA. Fjórða árið í röð náðu Framarar með naumindum að bjarga sér frá falli. Þeir unnu 3-0 með mörkum frá Ágústi Gylfasyni og Frey Karlssyni. Freyr skoraði tvö mörk og verður örugglega vel gert við hann í Safamýrinni í kvöld.
Það verður hlutskipti Keflvíkinga að falla með Þórsurum. Þeir unnu samt glæstan sigur gegn erkifjendunum í Grindavík í dag og falla með sæmd. Grindavík komst yfir í leiknum og var þar að verki Grétar Hjartarson sem varð þar með markahæsti leikmaður deildarinnar og hlýtur gullskóinn. Í seinni hálfleik héldu Keflvíkingum engin bönd. Guðmundur Steinarsson jafnaði á 58.mínútu og Þórarinn Kristjánsson kom þeim yfir 8 mínútum seinna. Guðmundur bætti svo öðru marki sínu við úr vítaspyrnu en um leið misstu Grindvíkingar Jón Guðmundsson útaf með rautt. Á seinustu sekúndunum skoraði svo Þórarinn aftur og Keflavík vann 4-1. Því miður fyrir þá dugði þessi sigur ekki því Framarar voru með betri markatölu. Það var þó mjög tæpt því aðeins munaði einu marki!
KR 5-0 Þór
1-0 Veigar Páll Gunnarsson 15. mín
2-0 Veigar Páll Gunnarsson 20. mín
3-0 Sigurvin Ólafsson 42. mín
4-0 Sigurvin Ólafsson 50. mín
5-0 Sigurður Ragnar Eyjólfsson 65. mín
ÍA 2-0 Fylkir
1-0 Hjörtur Hjartarson 53. mín
2-0 Grétar Rafn Steinsson 56. mín
KA 0-3 Fram
0-1 Ágúst Gylfason (v) 19. mín
0-2 Freyr Karlsson 62. mín
0-3 Freyr Karlsson 65. mín
Grindavík 1-4 Keflavík
1-0 Grétar Hjartarson 28. mín
1-1 Guðmundur Steinarsson 58. mín
1-2 Þórarinn Kristjánsson 66. mín
RAUTT Jón F Guðmundsson 68 mín
1-3 Guðmundur Steinarsson (v) 69. mín
1-4 Þórarinn Kristjánsson 90. mín
FH 2-0 ÍBV
1-0 Atli Viðar Björnsson 55. mín
2-0 Jónas Grani Garðarsson 90. mín