Á morgun er Dagurinn Á morgun klukkan 14 verður flautað til leiks í lokaumferð Símadeildar karla í knattspyrnu. Fylkismenn hafa eins stigs forystu á KR-inga, þannig að ef þeir vinna ÍA á morgun þá vinna þeir íslandsmeistaratitilinn. Skagamenn eru þó þekktir fyrir að kalla ekki allt ömmu sína. KR-ingar fá Þórsara í heimsókn sem munu leika án Þórhalls markaskorara. En ég fór smá netflakk og er hér smá upphitun fyrir leiki morgundagsins.

FH - ÍBV
Þegar maður kíkir á heimasíðu Hafnfirðinga virðast þeir ekki hafa miklar áhyggjur af því að þeir falli. En það er möguleiki að svo verði, ef Keflavík og Fram vinna sína leiki og úrslitin í Kaplakrika verði ÍBV í hag. Á fhingar.is virðast FH-ingar meira vera að pæla í Pönnusteiktu lambafille “bearnaise” með rauðvínskryddjurtasósu, smjörsoðnu grænmeti og kartöflugratin sem þeir fá að borða á lokahófinu á laugardag. - ÍBV liðið er nánast öruggt um að halda sér uppi. ÍA, Keflavík, Fram og FH verða öll að vinna ef ÍBV á að lenda í fallsæti og þar að auki verða Keflavík og Fram að vinna með stórum mun eða allt að 10 mörkum en það færi auðvitað eftir því hvernig ÍBV liðið tapaði. Kjartan Antonsson, Ingi Sigurðsson og Bjarni Geir Viðarsson verða í banni á morgun og þá leikur Hjalti Jóhannesson væntanlega ekki vegna meiðsla.

KA - FRAM
KA tryggði sér fjórða sætið í Símadeildinni þegar liðið sigraði lið Keflavíkur 3-2 á sunnudag og sá Hreinn Hringsson alfarið um markaskorunina fyrir KA að þessu sinni. Dean Martin verður að láta sér það gott líka að vera í stúkunni þegar félagar hans leika við Fram vegna leikbanns. Dean á ennþá eftir tvö ár af samningi sínum við KA og búast má við honum sprækum á fótboltavellinum næsta vor. - Framarar ætla að hópast til Akureyrar þar sem örlög þeirra í Símadeildinni í ár ráðast. Leigðar hafa verið flugvélar til að koma stuðningsmönnum Fram norður og þá verður rútuferð og allt. Tveir Framarar eru í banni gegn KA. Það eru varnarmennirnir Sævar Guðjónsson og Bjarni Hólm Aðalsteinsson. Bjarni skoraði einmitt eitt marka Fram í 5-4 sigrinum gegn FH á sunnudag en það var hans fyrsta fyrir félagið.

GRINDAVÍK - KEFLAVÍK
Grindvíkingar munu örugglega mæta sterkir til leiks gegn Keflavík. Þeir hafa möguleika á að senda granna sína niður í 1.deild. Þá á Grétar Hjartarsson góða möguleika á markakóngstitlinum. Einnig heyrði ég að þeir ættu möguleika á stigameti og ég veit ekki hvað og hvað. - Kristján Jóhannsson Keflvíkingur var úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar KSÍ og missir því af leiknum. Það er að duga eða drepast fyrir Keflavík en liðið má ekki við því að falla.

KR - ÞÓR AKUREYRI
“Titillinn er okkar í ár” söng Bubbi Morthens eitt sinn. KR-ingar vona að hér fari Bubbi með rétt mál og verða mikil hátíðarhöld fyrir heimaleikinn gegn Þór á morgun. Félagsheimili þeirra verður opnað klukkan 12 og afhendir verða sætamiðar í stúku milli kl. 12:30 og 13:30. KR-klúbburinn býður upp á kaffi og meðlæti og andlitsmálun auk þess sem Domino´s selur pizzur. Þeir verða að vinna Þór og treysta á hagstæðum úrslitum á Akranesi til að verða meistarar. - Þessi leikur verður seinasti leikur Þórs í Símadeildinni að sinni þar sem þeir féllu niður í 1.deild á sunnudag. Það gleður örugglega margan KR-inginn að markaskorarinn Jóhann Þórhallsson verður ekki með Þór þar sem hann er að spreyta sig í Danmörku.

ÍA - FYLKIR
Fréttatilkynning frá ÍA: “Metnaður ÍA hefur alltaf og mun alltaf standa til þess að standa sig vel, bæði á knattspyrnuvellinum og utan hans. Svo mun að sjálfsögðu verða næstkomandi laugardag þegar annar tveggja úrslitaleikja Íslandsmótsins verður leikinn á Akranesi. Dylgjur um að Skagamenn muni ekki leggja sig alla fram í þessum leik eru því móðgandi gagnvart leikmönnum, stjórn og aðdáendum ÍA. Því miður er ÍA ekki með í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn þetta árið, en hvernig svo sem baráttunni um þennan eftirsótta titil lyktar verður ljóst að KR og Fylkir verða að berjast af krafti til að ná stigum á móti Þór og ÍA.” - Mikil eftirvænting er í Árbænum fyrir leikinn, ekki nema von þar sem Fylkir getur þarna unnið sinn fyrsta íslandsmeistaratitil. Leikir Fylkis og ÍA hafa ávallt verið hörkuleikir. Það verður eflaust engin undantekning á því á morgun. Fylkismenn flykkjast upp á Skaga og verða rútuferðir í boði, svo búast þeir við að fagna titlinum með á balli í Fylkishöllinni um kvöldið.

—-

EVRÓPUKEPPNIRNAR
Ef Fylkismenn verða Íslandsmeistarar komast þeir í Meistaradeildina, Fram og KR fara í Evrópukeppnina og Grindavík í Intertoto. Ef KR-ingar verða meistarar og Fylkir vinnur bikarinn fara KR í Meistaradeildina, Fylkir og Grindavík í Evrópukeppnina og KA fær Intertoto sæti. Ef allt fer hins vegar á versta veg fyrir Fylki og KR verður íslandsmeistari og Fram bikarmeistari þá fara þeir með Frömurum í Evrópukeppni félagsliða, KR í meistaradeildina og Grindavík í Intertoto.

SÉRSTAKUR ÚRSLITALEIKUR?
Mögulegt er að mótanefnd KSÍ þurfi að setja á sérstakan úrslitaleik í Símadeild karla að lokinni 18. umferð, sem fram fer á morgun. Ef úrslit leikja Fylkis og KR verða á þann veg að KR og Þór geri 3-3 jafntefli og ÍA sigrar Fylki 1-0, eru Fylkir og KR hnífjöfn í efsta sætinu. Þá eru félögin jöfn að stigum, markamismunur þeirra er jafn, skoruð mörk eru jöfn, og innbyrðis viðureignum lyktaði báðum með 1-1 jafntefli.