Sá Leeds og Man. Utd í morgun – ruglað – því 3ja mán hm áskriftin er búin. Ekki leist mér nú á í fyrri hálfleik því mínir menn voru nú bara fremur aftarlega á vellinum og gekk ekkert of vel frammi. Annars var nú aldrei nein stórhætta en það mjóaði nú munu að Woodgate fengi á sig víti fyrir að kippa aðeins í hönd Solskjaers, en það slapp. Robinson er fjandanum öruggari í markinu og maður er bara afslappaður í stofunni. Annars var Beckham nú heppinn að fá ekki spjald, jafnvel rautt, fyrir að setja olnbogann í trýnið á Bowyer. Smith fékk nú aldeilis rautt í fyrra fyrir akkúrat svona dæmi, að slæma olnboga í fésið á Cardiff kalli (í fokkíng tapleik) þegar gaurinn hékk í honum. Og Beckham hristi bara hausinn í þrjár mínútur og var alveg hissa! Ég var þó mest hissa hvað dómarinn hann Winter var góður, hann er yfirleitt slappur.
Annars settu mínir menn eitt í seinni hálfleik, Kewell eftir sendingu frá Harte sem er nú ekkert frábær varnarmaður en hefur samt töfra í tánum á vinstrinni sem gerir hann býsna mikilvægan.
Ferdinand kallinn var nú næstum búinn að gefa okkur annað mark með frámunalega lélegri sendingu beint á Leedsara en slapp með skrekkinn. Kallaður Júdas og púaður í kaf allan leikinn.
Annars skil ég ekki hvað verið er að blása þetta upp í fréttum sem Ridsdale sagði, nota bene fyrir einum þremur vikum síðan, að það væri fínt að græða 12 millur á leikmanni sem keyptur hefði verið sem varaskeifa fyrir Woodgate á meðan á málaferlunum stóð! Samt kúl að segja þetta.
Annars sýnir það nú styrk að vinna Newcastle 2-0 og Man. Utd. 1-0 og vera miklu meira í vörn en sókn allan leikinn. Þó ég hafi nú verið lúmskt fúll þegar O´Leary var rekinn og Venables ráðinn, hef ég tröllatrú á mínum mönnum og það virðist vera að koma í ljós það sem ég tautaði um í allan fyrravetur - við lítinn fögnuð hugara – að Smith yrði aðalmaðurinn í liðinu og eftir nokkur ár í landsliðinu. Svo koma Bridges og Fowler bráðum inn og Radebe og Batty eru til í slaginn þarna fyrir aftan.
Svei mér þá ef við erum bara ekki bestir.