Fram mætti ÍBV í undanúrslitaleik Coca Cola bikarsins í Laugardalnum í gær. Grenjandi rigning var allan tímann meðan leikurinn var í gangi og ekki fengu áhorfendur að sjá fallegan fótbolta en leikurinn engu að síður mjög skemmtilegur. Leikurinn fór rólega af stað en á 13.mínútu voru Framarar heppnir þegar Gunnar markvörður bjargaði meistaralega eftir að Sævar Guðjónsson Framari skallaði boltann til baka framhjá honum. Það stóð svo tæpt að boltinn stoppaði á marklínunni en Gunnar fór langt inn í markið. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en staðan markalaus í leikhléi. Í upphafi seinni hálfleiks voru Ejamenn mun öflugri og kom Páll Hjarðar þeim yfir eftir sendingu bæjarstjórans Inga Sigurðssonar. Markið kannski ekki mjög fallegt og er líklegt að hér hafi verið um sjálfsmark að ræða. Á 71.mínútu fékk Fram hornspyrnu og skoraði Þorbjörn Atli Sveinsson eftir hana og Framarar búnir að jafna. Þetta mark sló ÍBV algjörlega út af laginu og á 78.mínútu skoraði Kristján Brooks fallegt skallamark og kom hvítklæddum Frömurum yfir en Eyjamenn léku í bláum búningum! ÍBV setti boltann einu sinni í netið eftir þetta en réttilega var dæmd rangstaða. Fram vann 2-1 og eru komnir í bikarúrslit.
Sigurinn var sanngjarn og gæti hann hafa tryggt Frömurum Evrópusæti fyrir næstu leiktíð. Þeir mæta annað hvort Fylki eða KA í úrslitum en það ræðst í kvöld þegar þessi tvö lið leiða saman hesta sína á Laugardalsvellinum kl.19:30 (beint á RÚV). Að mínu mati voru þrír leikmenn sem stóðu upp úr hjá Fram í gær. Kristján Brooks var ferskur, Ágúst Gylfason traustur að vanda og varamaðurinn Haukur Snær Hauksson sem kom inná á 55.mínútu var síógnandi. Já, í gær gátu Framarar brosað út að eyrum í fyrsta skipti í sumar.