Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari Íslands, hætti við landsliðsæfingu sem fyrirhuguð var klukkan tíu í morgun. Atli ákvað að gefa landsliðsmönnum hvíld, en þeir æfðu tvisvar í gær. Íslenska landsliðið æfir seinni partinn í dag, en liðið mætir sem kunnugt er Ungverjum í vináttulandsleik á Laugardalsvelli á morgun klukkan 16:00. Eggert Magnússon, formaður KSÍ, sagði á Stöð 2 í gær að markmið Íslands í riðlakeppni Evrópumótsins að þessu sinni væri að ná öðru sæti riðilsins. Þjóðverjar verða að öllum líkindum í efsta sætinu en Eggert vill verða ofar Skotum sem hafa verið í mikilli lægð.
Atli sendi þá Bjarna Jóhannsson þjálfara Grindavíkur og Sigurð Jónsson þjálfara FH til njósnastarfa um helgina. Þeir munu fylgjast með leikjum Litháa og Þjóðverja annars vegar og Færeyinga og Skota hinsvegar en eins og flestum er kunnugt um þá eru Íslendingar í riðli með þessum 4 þjóðum. Íslenska liðið situr hjá í þessari umferð en mætir Skotum á Laugardalsvelli 12. október.
Vináttuleikurinn gegn Ungverjum á morgun fer fram á Laugardalsvelli og hefst kl. 16:00. Litlar breytingar eru á liðinu frá leiknum gegn Andorra í síðasta mánuði. Brynjar Björn Gunnarsson fer í hægri bakvörðinn, Ívar Ingimarsson færist inn á miðjuna og Lárus Orri Sigurðsson kemur inn í miðja vörnina.
BYRJUNARLIÐIÐ:
Árni Gautur Arason.
Brynjar Björn Gunnarsson
Lárus Orri Sigurðsson
Hermann Hreiðarsson
Arnar Þór Viðarsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson
Rúnar Kristinsson (fyrirliði)
Ívar Ingimarsson
Hjálmar Jónsson.
Ríkharður Daðason
Eiður Smári Guðjohnsen