Í gær lauk 16.umferð í Símadeild karla þegar fjórir leikir fóru fram. Um helgina gerðu ÍA og Fram 1-1 jafntefli og leikjunum sem fram áttu að fara á sunnudagskvöld var frestað vegna veðurs. Þeir fóru því fram í gær og er ekki hægt að segja að knattspyrnumenn hafi verið á skotskónum.
Heimamenn voru betri aðilinn lengst af á Akureyri þar sem Þór mætti Fylki. Þarna leiddu saman hesta sína lið á toppnum og lið á botninum og ekki var hægt sjá mun. Óðinn Árnason átti skot í slá Fylkismanna snemma leiks og Kjartan Sturluson sýndi fín tilþrif inn á milli. Það gerði markvörður Þórs, Atli Már, einnig en sérstaklega eftir skot frá Finni Kolbeinssyni á 30.mínútu. Á 60.mínútu hófst mikil sóknarlota hjá Þórsurum en lánið var ekki með þeim og markið sem lá í loftinu kom aldrei. Fylkismenn hresstust og á 82.mínútu slapp Theodór Óskarsson einn í gegn og afgreiddi boltann örugglega í netið. Þetta var eina mark leiksins og fögnuðu Árbæingar sigrinum innilega.
Átta spjöld litu dagsins ljós í sannkölluðum hörkuleik í Vesturbænum í gær þegar KR tók á móti ÍBV. Strax á fyrstu mínútu munaði litlu að Tómas Ingi hefði skorað fyrir ÍBV. Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom eyjamönnum yfir eftir aðeins 13 mínútna leik þegar hann skoraði af harðfylgi. KR-ingar sóttu mikið eftir þetta en Birkir var að standa sig í eyjamarkinu. Á 35.mínútu átti Sigurvin Ólafsson aukaspyrnu sem lenti í slá en aðeins mínútu síðar jöfnuðu KR-ingar með góðu skallamarki Einars Þórs Daníelssonar. Seinni hálfleikur einkenndist af grófum leik hjá ÍBV og mörgum glórulausum brotum. Á 63.mínútu fór bitið úr sóknarleik ÍBV þegar Tómas Ingi fór meiddur af leikvelli. Tíu mínútum síðar fékk Atli Jóhannesson að líta rauða spjaldið en KR-ingar nýttu sér ekki liðsmuninn og úrslitin 1-1.
Seinkun varð á flugi frá Akureyri þannig að leikur Grindavíkur og KA hófst 38 mínútum á eftir áætlun. Scott Ramsey tók út leikbann og því vantaði alla sköpunargáfu í sóknarleik Grindvíkinga. Þeir voru þó mun meira með boltann og KA menn geta þakkað fyrir að hafa náð stigi úr þessum leik. Albert Sævarsson átti náðugan dag en Þórður Þórðarsson í marki KA hafði nóg að gera og er tvímælalaust maður þessa leiks. Annars frekar bragðdaufur leikur og markalaust jafntefli.
Einnig varð markalaust jafntefli í Kaplakrikanum þar sem aðstæður voru hinar bestu. FH og Keflavík léku og leikurinn var frekar slakur. Á 10 mínútna kafla seint í leiknum munaði þrívegis litlu að FH-ingar næðu að brjóta ísinn. Baldur Bett þrumaði í stöngina, Jóhann Möller fór illa með gott færi og Ómar Jóhannesson varði með snilldartilþrifum góðan skalla Jónasar Grana. Þó svo að Hafnfirðingar hafi haft undirtökin þá var leikur þeirra ómarkviss og einhæfur. Keflvíkingar pökkuðu í vörn og kýldu knettinum fram völlinn. “Það er greinilegt að taugaveiklun er hjá mörgum liðum og það bitnar á leiknum” sagði Kjartan Másson þjálfari liðsins.
Þór – Fylkir 0-1
0-1 Theodór Óskarsson (82)
KR – ÍBV 1-1
0-1 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (13)
1-1 Einar Þór Daníelsson (36)
RAUTT Atli Jóhannsson, ÍBV (72)
Grindavík – KA 0-0
FH – Keflavík 0-0
Já, það var frekar lítið um mörk í Símadeildinni. Meðan þrjú mörk voru skoruð í fjórum leikjum þá voru skoruð sjö í einum leik í 1.deildinni!!! Víkingur vann Breiðablik 4-3 í Kópavoginum