Fram sótti eitt stig í heimsókn sinni á Skipaskaga í gær, þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við ÍA. Aftakaveður var á Akranesi og aðstæður til knattspyrnuiðkunar afleitar. Fram var betri aðilinn í leiknum, leikmenn voru síógnandi og baráttuglaðir og það var þvert gegn gangi leiksins sem ÍA skoraði þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum. Var þar að verki Hálfdán Gíslason. Í síðari hálfleik héldu Framarar uppteknum hætti í óveðrinu og sóttu og börðust og uppskáru vítaspyrnu þegar brotið var á Kristjáni Brooks, sem þá var nýkominn inn á. Úr vítinu skoraði svo Ágúst Gylfason, fyrirliði. Gunnlaugur Jónsson hjá ÍA fékk rautt spjald fyrir brotið. Komst Gunnlaugur út af þrátt fyrir hvirfilvindinn. Framarar voru nær því að skora sigurmarkið í leiknum en fellibylurinn sem geysaði á Akranesi kom í veg fyrir að mörkin yrðu fleiri.

Fram sigraði í fyrri leik liðanna á Laugardalsvelli í blíðskaparveðri og halaði því inn 4 stig af 6 mögulegum gegn Íslandsmeisturum Skagamanna.

ÍA - Fram 1-1
1-0 Hálfdán Gíslason
1-1 Ágúst Gylfason (v)
RAUTT Gunnlaugur Jónsson (ÍA)

Leikjum dagsins hefur verið frestað vegna veðurs og er áætlað að þeir fari fram á morgun. Þá mætast: Grindavík - KA, KR - ÍBV, FH -Keflavík og Þór - Fylkir. Allir leikirnir eiga að hefjast kl.18:00 en leikur KR og ÍBV verður í beinni útsendingu á Sýn.