Ísland sigraði lélegt lið Andorra örugglega Andorra var í heimsókn á Laugardalsvellinum í gær. Leikinn var vináttulandsleikur og er skemmst frá því að segja að yfirburðir Íslands voru algjörir. Ég kom mér þægilega fyrir í sófanum heima og horfði á leikinn á RÚV enda ætlaði ég mér ekki að borga fyrir að horfa á svona lélegt lið eins og Andorra etja kappi við mína þjóð. Skil ég ekki hvað KSÍ var að pæla með því að taka leik á móti svona liði. “Leikmenn sem væru bara miðlungsmenn í 2.deildinni hér heima” sagði Lárus lýsandi á RÚV um Andorra. Ég ætla ekki að taka jafn sterkt til orða eins og hann enda hef ég litla trú á þessum manni og skil ekki hvernig þessi maður getur unnið sem íþróttafréttamaður… en þá er ég búinn að hella úr skál reiðinnar og vindum okkur yfir í leikinn:)

Leikmaður Chelsea, Eiður Smári Guðjohnsen, gaf tóninn á 19. mínútu með marki af stuttu færi eftir fyrirgjöf Arnars Viðarssonar. Ríkharður Daðason bætti við öðru marki sjö mínútum síðar eftir undirbúning Hermanns Hreiðarssonar. Ríkharður skoraði aftur á 43. mínútu en markið var nokkuð skondið. Ísland átti skot í stöng, varnarmaður Andorra reyndi að bjarga frá en skaut í hnéð á Rikka og inn. Allir leikmenn íslenska liðsins komu við sögu og léku Fylkismennirnir Kjartan Sturluson og Sævar Þór Gíslason sinn fyrsta landsleik. Þrátt fyrir að hafa spilað einum fleiri nær allan seinni hálfleik náði Ísland ekki að bæta við marki.