KR og Keflavík mættust í gær á KR-velli. Það fór um KR-inga í stúkunni eftir sem á leið leikinn því Keflvík varðist vel og beitti mjög hröðum skyndisóknum sem byggðust á Guðmundi Steinarssyni og Hauki Inga og voru þeir mjög kræfir. Það var svo á 21 mínútu sem að dró til tíðinda þegar Haukur Ingi fékk vítaspyrnu sem Guðmundur tók. Valþór Halldórsson stóð í marki KR en hann tók stöðu Kristjáns Finnbogasonar sem meiddist á æfingu í vikunni. Valþór stóð sig mjög vel og varði vítaspyrnuna. Sennilega hefur enginn markvörður varið vítaspyrnu jafn snemma í frumraun sinni í efstu deild. Þetta var þó ekki nóg því á 33 mín komst Haukur Ingi í færi eftir klúður á miðjunni og setti boltann fram hjá Valþóri og staðan orðin 0-1. Þannig var staðan í hálfleik og voru Keflvíkingar líklegri til að bæta við en KR að jafna. Spil KR einkenndist á löngum sendingum fram og von um að einhver væri rétt staðsettur til að ná boltanum, Derby style leiðindi. Sigurvin Ólafsson jafnaði metin á 69 mínútu en fimm mínútum síðar komust Keflvíkingar aftur yfir þegar Hólmar Örn Rúnarsson skoraði. Skrifast markið að nokkru á vörn KR. sem á ekki að missa svona bolta framhjá sér. Það var svo á 85 mín sem að Sigurður Ragnar Eyjólfsson náði góðum skalla að marki og staðan 2-2. Það urðu úrslit leiksins og KR-ingar heppnir að ná stigi, þeir geta þakkað Valþóri í markinu fyrir.
Þórsarar sigruðu botnslaginn gegn Fram í Símadeild karla á Akureyrarvelli gær. Þetta var kærkominn sigur fyrir Þór enda sá fyrsti á heimavelli í sumar. Þrátt fyrir að vera bara með Jóhann Þórhallsson einan frammi voru Þórsarar mun sterkara liðið í fyrri hálfleik og hefðu getað verið 2-3 mörkum yfir í hálfleik. Forustan var hins vegar aðeins eitt mark sem Jóhann gerði eftir laglegan einleik. Síðari hálfleikur var öllu rólegri og lítið um færi. Eftir nokkuð stífa pressu Framara undir lokin komust Þórsarar í sókn sem endaði með því að Þórður Halldórsson skoraði og kom Þór í 2-0. Framarar brunuðu í sókn eftir þetta og minnkuðu munninn í 2-1 en þar var að verki Kristján Brooks með skalla eftir hornspyrnu. Þeir áttu síðan gott færi eftir það til að jafna. Engu að síður frábær 2-1 sigur hjá Þór sem þarf svo sannarlega að fylgja eftir í næstu leikjum til að fá að spila í efstu deild á næsta ári.
Grindvíkingar unnu nauman sigur á FH og gerði Ásgeir Ásgeirsson sigurmark Grindavíkur með sjálfsmarki á 88. mínútu. Óli Stefán Flóventsson hafði komið Grindavík yfir á 22. mínútu en Emil Hallfreðsson jafnaði á 55. mínútu. FH er í fimmta sæti deildarinnar með 17 stig á meðan Grindavík er í því þriðja með 22.
KR - Keflavík 2-2
0-1 Haukur Ingi Guðnason
1-1 Sigurvin Ólafsson
1-2 Hólmar Rúnarsson
2-2 Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Þór - Fram 2-1
1-0 Jóhann Þórhalsson
2-0 Þórður Halldórsson
2-1 Kristján Brooks
Grindavík - FH 2-1
1-0 Óli Stefán Flóventsson
1-1 Emil Hallfreðsson
2-1 Sjálfsmark