Valsmenn eru búnir að tryggja sér sæti í efstu deild á næstu leiktíð en baráttan fyrir neðan þá í 1.deildinni er ótrúlega hörð. Víkingur sem er í sjöunda sætinu er aðeins fjórum stigum frá öðru sæti nú þegar fjórar umferðir eru eftir. Tveir leikir fóru fram á föstudagskvöldið. Á Kópavogsvelli gerði Breiðablik jafntefli við Val sem náði með þeim úrslitum að innsigla sæti í Símadeildinni 2003. Haukar urðu svo fyrir því að tapa á móti Stjörnunni á heimavelli sínum 1-2.
Á Ólafsfjarðarvelli í gær fór Leiftur/Dalvík illa með lið ÍR 3-0 og eru nú þónokkrar líkur á því að Guðmundur Torfason og hans lærisveinar úr Breiðholtinu séu á leiðinni niður í C-deild! Það er svo sannarlega saga til næsta bæjar þar sem ÍR-ingar spiluðu í úrvalsdeildinni fyrir nokkrum árum og var álitið félag á mikilli uppleið.
Ég man eftir því þegar ég fór á leik Aftureldingar og Leiknis í lokaumferð 2.deildar í fyrra. Þá hefði mér aldrei nokkurn tímann dottið það til hugar að Afturelding myndi spila í úrvalsdeildinni eftir tvö ár. Sérstaklega í ljósi þess að eftir leikinn voru þeir frekar sárir enda lentu þeir í þriðja sæti í deildinni og komust ekki upp… eða það héldu þeir! Með sameiningu Leifturs og Dalvíkur fékk Afturelding sæti í 1.deildinni og bjóst ég við því að liðið myndi gjörsamlega skíta á sig. En þeir mættu með gjörbreytt lið til leiks í sumar og eiga nú góða möguleika á að komast upp! Þeir unnu Þróttara á Valbjarnarvellinum 1-0 og eru í öðru sæti deildarinnar.
Þá unnu Víkingar Sindra 2-0. Sindri er í næst neðsta sæti deildarinnar en fallbaráttan er ekki síður hörð heldur en toppbaráttan. Ég býst við því að Sindri falli en það er bara spurningin hverjir fara með þeim niður. Ég hef séð einn leik með ÍR á þessu sumri og þá léku þeir vægast sagt hörmulega. Þannig að ég hugsa að ég tippi á að þau lið sem nú séu í botnsætunum falli og svo held ég að Þróttur fylgi Val upp.
Staðan eftir 14.umferðir:
1 Valur - 35
2 Afturelding - 22
3 Þróttur R. - 21
4 Stjarnan - 21
5 Breiðablik - 20
6 Haukar - 18
7 Víkingur R. - 18
8 Leiftur/Dalvík - 15
9 Sindri - 12
10 ÍR - 12