Í kvöld um klukkan 18:00 verður flautað til leiks á Laugardalsvellinum þar sem fram fer Evrópuleikur. Fylkir tekur á móti Belgíska liðinu Excelsior Mouscron og kostar 1000 krónur inn en frítt er fyrir 16 ára og yngri.
Aðalsteinn Víglundsson, þjálfari Fylkis, hvetur áhorfendur til að mæta í Laugardalinn til að upplifa stórleiksstemmingu og styðja við bakið á strákunum. “Okkar markmið er að njóta þess að upplifa það ævintýri sem Evrópuleikir eru. Við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman af þessu. Við ætlum ekki að pakka í vörn. Ég breyti ekki leikskipulaginu þótt andstæðingarnir séu sterkir, það hefur reynst best í sumar að halda sig við það”. Aðalsteinn segist ekki vita mikið um Belgana annað en það að þeir séu með mjög sterkt lið.
Þjálfari Excelsior Mouscron, Lorenzo Staelens, segir að leikmenn sínir verði að mæta einbeittir til leiks ef þeir ætli að ná góðum úrslitum gegn Fylki í kvöld. “Við erum með reynslumikla sókn og miðju en vörnin er ung og óreynd, vegna meiðsla eru þrír af fjórum varnarmönnum mínu undir tvítugu. En ég hef ekki áhyggjur af því, ef við við mætum einbeittir til leiks eigum við góða möguleika, við ætlum okkur áfram í keppninni”. Hann sá Fylki vinna Skagann 4:1 og sagði að Fylkir væri greinilega með ágætis lið sem spilaði enskan bolta að hans mati - beittu mikið löngum sendingum fram völlinn.
Þórhallur Dan, varnarjaxlinn knái er hvergi smeykur fyrir leikinn: “Þetta eru atvinnumenn, fljótir og grimmir og við verðum að vera á tánum og taka vel á móti þeim. Við ætlum hins vegar að reyna að spila okkar leik og sækja hratt á varnarmenn þeirra sem eru ungir og óreyndir”. Þórhallur sagðist vera sáttur ef Fylkir myndi vinna leikinn.
Viðtöl eru fengin af Fylkir.com.