Guðni Rúnar Helgason, knattspyrnumaður hjá Val, skrifar í dag undir samning við norska úrvalsdeildarfélagið Start sem Guðjón Þórðarson tók við stjórninni hjá fyrir skömmu. Samningurinn gildir til loka keppnistímabilsins. Guðni Rúnar fer utan á allra næstu dögum en tekur þó ekki þátt í næsta leik Start sem verður gegn Lyn á sunnudag. Start er neðst í deildinni með aðeins 10 stig eftir 17 leiki. Lilleström er næstneðst með 16 stig og Moss hefur 17. Bæði liðin hafa leikið einum leik meira en Start.
Guðni Rúnar kom til Vals um mitt síðasta sumar frá norska B-deildarliðinu Hönefoss. Guðni Rúnar hóf ferilinn með Völsungi á Húsavík þar sem hann skipaði sér í hóp efnilegustu leikmanna landsins og varð eftirsóttur af sterkari liðum. Guðni Rúnar var um skeið hjá KR en lét loks að sér kveða hjá ÍBV þar sem hann varð tvöfaldur meistari árið 1998. Fyrir tveimur árum fór hann loks til Noregs og lék 15 leiki og skoraði 1 mark með Hönefoss.
Guðni er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað hvort sem er í vörn eða á miðju og hefur spilað stöðu miðvarðar það sem af er sumri. Hann er skotfastur og gefur góðar fyrirgjafir.
Staðan í Norska boltanum:
1. Rosenborg - 18 36
2. Lyn - 18 35
3. Molde - 18 34
4. Viking - 18 31
5. Stabæk - 18 31
6. Odd Grenland - 18 29
7. Valerenga - 18 25
8. Bodö/Glimt - 18 24
9. Brann - 17 21
10. Sogndal - 18 20
11. Bryne - 18 19
12. Moss - 18 17
13. Lilleström - 18 16
14. Start - 17 10