Ætli það sé ekki best að byrja á að fjalla um Liverpool og þeirra möguleika (þar sem ég er nú einu sinni púllari :-)). Þeir eru búnir að bæta við sig nokkrum mönnum og voru búnir að eyða mest allra liða þar til Ferguson ákvað að sprengja skalann svolítið - svona til að sýna yfirburði sína. Mér líst í sjálfu sér ágætlega á kaupin á Bruno Cheryou og El-Hadji Diouf og held að þessir menn geti komið til með að styrkja liðið að einhverju marki og þá sérstaklega Cheryou ef hann heldur áfram að sýna það sem hann gerði á síðasta tímabili og hefur sýnt á undirbúningstímabilinu. Diouf kemur til með að eiga erfitt með að festa sig í byrjunarliðinu enda ekki auðvelt að þurfa að keppa við Owen, Heskey og Baros (sem hefur virkað sprækur undanfarið), en hann kemur samt með ákveðna tilbreytingu í sóknarleikinn og gæti komið til með að reynast dýrmætur. Hinn senegalinn, Salif Diao var keyptur sem backup fyrir Gerard og Hamann og er öflugur sem slíkur ég sé ekki að hann komi til með að spila mikið og verður án efa afar sjaldan í byrjunarliðinu. Það sem kemur samt til með að breyta mestu fyrir liðið er endurkoma Markusar Babbel, það þarf enginn að velkjast í vafa um að hann er einn besti hægri bakvörður heims og svo getur hann skilað boltanum ágætlega fram völlinn - eitthvað sem liðinu sárvantar. Houllier segir sjálfur að nú sé hann með 3 menn í hverja stöðu á vellinum og sýnist mér það vera nokkuð rétt hjá honum - mér virðist sem eina vandræða staðan sé hægri kanturinn en ef Houllier nær að draga Duff á Anfield (er nú samt frekar hæpið) verður liðið að teljast líklegur kandidat í titilinn í vor.
Arsenal kemur hugsanlega til með að eiga erfiða byrjun á tímabilinu þar sem meiðslalistinn inniheldur meðal annarrs besta leikmann þeirra í fyrra, Robert Pires og ljóst að hann verður frá í nokkurn tíma - þeim tókst hins vegar alveg prýðilega upp án hans í fyrra og það ekki síst fyrir tilstilli Freddie Ljungberg og ef hann heldur áfram sama formi og í lok síðasta tímabils ætti þetta að reddast. Arsenal hafa bara bætt við sig einum manni í sumar sem eitthvað kveður að, Gilberto Silva, en samt ljóst að hann kemur til með að styrkja liðið talsvert. Hvað sem öllum meiðslum og rólegum peningasóunum kemur ætti öllum að vera ljóst að Arsenal hefur mannskap til að vera með í baráttunni um titilinn og Arsene Wenger er þess fullvís að þeim takist að halda sig á toppnum. Hvernig til tekst veltur mikið á lykilmönnum liðsins, að mínu mati Henry og Vieira og svo því hvernig hin aldna vörn Arsenal (sem er nú farin að yngjast eitthvað) tekst að stappa sig saman með gamla síðhærða gúmmítöffarann fyrir aftan sig.
Man.Utd. sprengdu eins og áður sagði skalann smá með því að eyða 30 millum eða svo í einn varnarmann, Rio Ferdinand, og ætti hann nú að koma til með að styrkja vörnina eitthvað en það er samt alltaf spurningarmerki hvernig stjörnurnar koma til með að passa inn í liðin eins og ManUtd komst að í fyrra með Veron. Samt hef ég það einhvern veginn á tilfinningunni að með Ferdinand og Blanc saman í miðri vörninni, Silvestre og Neville í bakvörðunum og svo Keane fyrir framan þá verði vörnin ansi erfið viðureignar. Ef svo Veron kemur til með að sýna sitt rétta andlit og Nistelrooy í sama stuði og í fyrra verður alveg ákaflega erfitt að innbyrða sigur gegn þeim. Helstu vandræðin þeirra í fyrra voru óvissan með þjálfaramálin og svo ósamstillt lið en nú er sörinn búinn að slá á óvissuna með nýjum samning og Veron er búinn að lofa að hætta öllum stjörnustælum svo talsverðar líkur verða að teljast á að þetta lið nái að smella saman og þá er voðinn vís.
Þessi þrjú lið sem ég hef talið upp koma til með að berjast um titilinn og hallast ég helst að því að ManUtd verði meistarar (því ver og miður) og Arsenal og Liverpool verða þar skammt á eftir. Árangur þessarra liða í meistaradeildinni gæti komið til með að setja strik í reikninginn enda álagið dálítið mikið ef liðin komast langt þar - það sannaðist best í fyrra þar sem liðið sem datt fyrst út úr CL vann deildina og liðið sem komst lengst varð í þriðja sæti!
Skammt á eftir þessum þremur liðum verða svo Leeds, Newcastle og Chelsea en eitt þeirra gæti þó hæglega blandað sér í baráttuna um titilinn. Mér sýnist sem leikmannahópar þessarra liða séu lítið breyttir og það ætti að hjálpa þeim að ná samstöðu í liðin, sem eins og flestir vita skiptir gríðarlega miklu máli.
Ég verð nú að játa að ég hef ekki kynnt mér önnur lið neitt sérstaklega en kanski að ég nenni því eftir helgi og kem þá með smá pistil um liðin sem verða í fallbaráttunni - en nóg í bili
með von um jafnt og skemmtilegt tímabil
Rhamsez
kv.