Framarar duttu niður í fallsæti á sunnudagskvöld. Þá léku FH og Þór Akureyri í botsnlag deildarinnar og höfðu FH-ingar betur og náðu þar með að lyfta sér úr fallsæti. Þar með er FH komið upp í 8. sæti í deildinni, hefur 12 stig að loknum 10 leikjum, er með jafnmörg stig og ÍBV sem hefur leikið einum leik fleira. FH bauð upp á sóknarbolta af bestu gerð á sínum glæsilega heimavelli frá upphafi til enda. FH hafði 2-0 yfir í hálfleik með mörkum frá Jóni Þ. Stefánssyni og Calum Bett. Bett stóð sig vel í þessum fyrsta leik fyrir FH-inga.
Fyrrverandi leikmaður FH, Hlynur Eiríksson, minnkaði óvænt muninn fljótlega í síðari hálfleik. Hann var í liðini í stað Orra Freys sem var í banni. Síðari hálfleikur þróaðist líkt og hinn fyrri, FH-ingar sköpuðu sér fjöldann allan af færum og hefðu hæglega getað skorað helmingi fleiri mörk en þeir þó gerðu. Fimm var hins vegar meira en nóg til þess að leggja slaka Þórsara. Jónas Grani kom FH í 3-1 á 57. mínútu. Atli Viðar Björnsson kom FH í 4-1 áður en Hlynur bætti við öðru marki Þórs á 73. mínútu, rétt áður en honum var skipt út af. Jónas Grani innsiglaði svo stórsigur FH undir lokin með sínu öðru marki, 5-2.
Hlynur Eiríksson var manna ferskastur í liði Þórs en að öðru leyti þá olli leikur liðsins miklum vonbrigðum. Liðið er með góða einstaklinga innanborðs en það er að skila litlu. Calum Bett og Atli Viðar Björnsson komu ferskir inn í byrjunarlið Hafnfirðinga. Næsti leikur í Símadeild karla er á miðvikudaginn en þá mætast ÍBV og Fram á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.
FH - Þór Akureyri 5-2
1-0 Jón Þ. Stefánsson
2-0 Calum Bett
2-1 Hlynur Eiríksson
3-1 Jónas Grani Garðarsson
4-1 Atli Viðar Björnsson
4-2 Hlynur Eiríksson
5-2 Jónas Grani Garðarsson