Það var sannkölluð rjómablíða á Akureyrarvelli í gær þar sem Fylkismenn úr Árbæ voru í heimsókn hjá KA. Fylkir fékk óskabyrjun í leiknum er Sævar Gíslason skoraði á fyrstu mínútu leiksins. Hann átti þrumuskot í þverslána og inn. KA menn voru meira með boltann í seinni hálfleik en náðu ekki að ógna Fylkismarkinu verulega. Steingrímur Jóhannesson bætti öðru marki við fyrir gestina eftir sendingu Sævars Þórs. Rúmlega 500 áhorfendur voru á leiknum sem endaði 0-2, Fylkis-sigur. Samkvæmt heimasíðu Fylkismanna þá voru u.þ.b. 200 áhorfendur sem fylgdu Fylkismönnum til Akureyrar.
Stórleikur fór fram á Akranesi í dag. ÍA - KR. Besta færið í fyrri hálfleik fékk Sigurður Ragnar Eyjólfsson rétt áður en Gylfi Orrason dómari flautaði til hálfleiks. Siggi komst einn á móti Ólafi Þór Gunnarssyni markverði ÍA sem bjargaði með góðu úthlaupi. Bæði lið björguðu einu sinni á marklínu í hálfleiknum, fyrst Reynir Léosson frá Einari Þór Daníelssyni og svo Sigþór Júlíusson frá Grétari Rafni Steinssyni. Sigþór bjargaði svo aftur á marklínu seinna í leiknum. Veigar Páll Gunnarsson skoraði fyrir KR á 63. mínútu þegar hann átti hnitmiðað skot með vinstri fæti frá vítateigslínu og fór knötturinn á milli fóta Gunnlaugs Jónssonar fyrirliða ÍA. Á 70.mínútu jafnaði Bjarki Gunnlaugsson fyrir ÍA gegn sínum fyrrum samherjum. Hann skoraði af stuttu færi eftir skalla frá bróður sínum Garðari. Jón Arnar Sigurgeirsson fékk sannkallað dauðafæri í stöðunni 1-1 en Ólafur varði ótrúlega. Fimm mínútum fyrir leikslok skoraði svo Sigurður Ragnar annað mark KR gegn sínum fyrrum samherjum. Markið var skorað af stuttu færi eftir undirbúning Þormóðar Egilssonar fyrirliða. Með þessum 2-1 sigri þá endurheimti KR toppsætið.
KA - Fylkir 0-2
0-1 Sævar Þór Gíslason
0-2 Steingrímur Jóhannesson
ÍA - KR 1-2
0-1 Veigar Páll Gunnarsson
1-1 Bjarki Gunnlaugsson
1-2 Sigurður Ragnar Eyjólfsson