Tveir leikir fóru fram í 8 liða úrslitum Coca Cola bikarsins í gær en í fyyradag tryggðu KA og Fylkir sér áframhaldandi þátttöku. Á Laugardalsvellinum urðu úrslitin ótrúleg og sannaðist það að íþróttir geta verið ósanngjarnar. Fram tók á móti Keflavík og voru gestirnir betri allan leikinn. Eftir hálftíma leik kom fyrsta markið þegar boltinn barst til Thomas Rutter sem skoraði fyrir Fram gegn gangi leiksins. Kristjá Brooks var í byrjunarliði Fram í fyrsta skipti og bætti hann við öðru marki. Var reyndar kolrangstæður en línuvörðurinn var úti á þekju. Daði Guðmundsson kom síðan Fram í 3-0 með góðum skalla, ótrúleg staða þar sem Keflavík var miklu betra lið og brenndu af hverju dauðafærinu á fætur öðru. Þeir áttu skot í tréverkið, bjargað var á línu frá þeim og Gunnar í marki Fram varði oft glæsilega. Ótrúlegt að þeir náðu aðeins að skora eitt mark en það kom frá Adolfi Sveinssyni. Fram komust í undanúrslit með þessum 3-1 sigri en Kjartan Másson þjálfari gestanna segist aldrei hafa fengið fleiri færi í einum leik!
ÍBV fylgir Fram í undanúrslit bikarkeppninnar en þeir lögðu Leiftur/Dalvík sanngjarnt 1-0 og gerði Bjarnólfur Lárusson markið úr vítaspyrnu í síðari hálfleik. Í dag var síðan dregið í undanúrslitin. Liðin sem léku til úrslita í keppninni í fyrra, bikarmeistarar Fylkis og KA, mætast. Í hinum leiknum mætast ÍBV og Fram. Leikirnir verða háðir á Laugardalsvelli 10. og 11. september og þykir líklegt að leikmenn ÍBV og Fram ríði á vaðið og Fylkir og KA mætist daginn eftir.