Fylkir tók á móti FH í gær á Fylkisvellinum í lokaleik 10.umferðar. Hafnfirðingar virkuðu mun ákveðnari í byrjun leiks og voru óheppnir að skora ekki nokkur mörk í fyrri hálfleiknum. Eftir hlé batnaði leikur heimamanna en FH-ingar voru þó sterkari. Hrafnkell Helgason skaut rétt framhjá marki FH og Daði Lárusson varði skot Sverris Sverrissonar. FH-ingar áttu síðan skot í slá á 73.mínútu og komust svo yfir tveimur mínútum síðar þegar Jónas Grani Garðarsson skaut, Kjartan markvörður hélt ekki boltanum sem rann undir hann og inn. 0-1. Fimm mínútum fyrir leikslok náði svo Sverrir að jafna fyrir Fylki og í blálokin tryggðu þeir sér sigur með marki Björns Viðars Ásbjörnssonar eftir þunga sókn. Fylkis-sigur 2-1.
Lukkan var greinilega með Árbæingum í leiknum og FH-ingar sitja eftir með sárt ennið. Fylkir skaust upp í annað sætið og vantar aðeins tvö stig til að ná KR. FH á leik til góða gegn Fram sem verður að vinnast þar sem þeir eru komnir í bullandi fallbaráttu. “Við þurftum að halda út í fimmtán mínútur en klikkuðum á einbeitingunni og þetta var í einu orði sagt hræðilegt” sagði Jónas Grani eftir leikinn.
Fylkir - FH 2-1
0-1 Jónas Grani Garðarsson (75)
1-1 Sverrir Sverrisson (85)
2-1 Björn Viðar Ásbjörnsson (88)