Grindvíkingar lágu gegn KR KR heimsótti Grindavík í stórleik í Símadeildinni í gær. Fátt markvert gerðist í leiknum fyrr en á 13.mínútu þegar Sinisa Kekic náði að setja boltann í mark KR-inga en dæmd var rangstaða. Á 28.mínútu gerðist það sama, aftur var Kekic rangstæður, nú eftir skot Scott Ramsey. Sigurður Ragnar Eyjólfsson var oft á tíðum frekar einmana í framlínu KR en rétt fyrir leikhlé komst hann í gegnum vörn heimamanna eftir góða sókn en Albert Sævarsson í marki Grindavíkur var snöggur út úr markinu og náði að bjarga. Albert átti síðan tvær glæsilegar markvörslur í upphafi seinni hálfleiks. Sinisa Kekic fékk síðan mjög gott færi á 65.mínútu, gerði allt rétt nema skotið sem fór langt framhjá. Eina mark leiksins kom síðan á 85.mínútu þegar Veigar Páll Gunnarsson skoraði (eftir langa bið). Hann potaði boltanum í netið eftir misheppnaða spyrnu Paul McShane. Annars stóð Paul sig mjög vel í leiknum.

“Ég er sáttur við hvernig ég hef spilað í sumar og aðrir hafa séð um að skora, þannig að ég er ánægður” sagði Veigar í viðtali við Morgunblaðið. Það var tvennt sem vakti athygli í uppstillingu Grindvíkinga. Annars vegar var Jón F. Guðmundsson í vörninni, í fyrsta sinn í byrjunarliðinu í sumar og stöð sig gríðarvel. Hins vegar vakti athygli hver var varamarkvörðurinn en það var hinn 45 ára Þorsteinn Bjarnason fyrrverandi landsliðsmarkvörður. KR komst með sigrinum í fjögurra stiga forystu. Liðið hefur nú ekki tapað í Grindavík síðan 1995 sem er glæsilegur árangur.

Grindavík – KR 0-1
0-1 Veigar Páll Gunnarsson (85)

MARKAHÆSTIR:
6 – Bjarki Gunnlaugsson (ÍA)
6 – Grétar Hjartarsson (Grindavík)
6 – Gunnar Heiðar Þorvaldsson (ÍBV)
6 – Jóhann Þórhallsson (Þór)
6 – Sævar Þór Gíslason (Fylkir)
5 – Sigurður Ragnar Eyjólfsson (KR)