ÍBV - KA FRESTAÐ
Leik ÍBV og KA sem fara átti fram klukkan 14:00 í dag í Vestmannaeyjum hefur verið frestað um einn sólarhring og á hann að fara fram klukkan 14:00 á morgun, sunnudag verði flugfært frá Akureyri.
—
FÆR GUÐJÓN GOTT START HJÁ START?
Guðjón Þórðarson var í vikunni ráðinn þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins Start. Guðjón tekur við af Jan Halvor Halvorsen, sem var rekinn frá félaginu á dögunum. Guðjón er aðeins ráðinn til að stýra liðinu út þessa leiktíð. Start er í neðsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar með aðeins sjö stig eftir 13 umferðir.
—
1.DEILD KARLA
Þrír leikir fóru fram í 1.deild karla í gær. Breiðablik vann Þrótt 2-0 í Kópavoginum, Víkingar unnu Hauka 4-2 og Afturelding sigraði Leiftur/Dalvík að Varmá 4-2. Valsmenn hafa 25 sig í efsta sætinu, Afturelding er í öðru með 18 stig og Blikar í þriðja með 16.
—
RIKKI DAÐA TIL LOGA OG CO.
Ríkharður Daðason knattspyrnumaður var í vikunni leystur undan samningi við Stoke og gekk til liðs við Lilleström í Noregi. Aðstoðarþjálfari Lilleström er Logi Ólafsson og leika núþegar 3 aðrir íslenskir leikmenn með liðinu, svo Rikki verður í góðum félagsskap.
—
KVENNALIÐIÐ U17 FÉKK BRONS
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, tryggði sér þriðja sætið á opna Norðurlandamótinu með 2-0 sigri á Hollendingum á KR-velli. Dóra Stefánsdóttir gerði bæði mörk Íslands. Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður landsliðsins og FH fór úr axlarlið í leiknum og var flutt með sjúkrabíl á sjúkrahús. Þetta er í 3 skiptið sem þetta gerist hjá Guðbjörgu í leik eða á æfingu á vegum KSÍ. Danir lögðu Svía með gullmarki í úrslitaleik mótsins.
—