Í gær fór fram fyrsti leikurinn í 9.umferð Símadeildarinnar. Á Akureyri tóku heimamenn í Þór á móti KR. Það komu tvö mörk í leiknum og voru þau skoruð í sitthvorum hálfleiknum. Á lokamínútu fyrri hálfleiks var brotið á Arnari Jóni Sigurgeirssyni innan víateigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Sigurður Ragnar Eyjólfsson tók vítið og skoraði. Það urðu síðan hlutverkaskipti á 75.mínútu þegar Sigurður sendi á Arnar Jón sem bætti öðru marki við. Þetta var sjötti sigur KR-inga á Þór fyrir norðan og sá fyrsti sem vinnst með stærri mun en einu marki. KR er því komið í efsta sætið en Fylkir fær ÍA í heimsókn í kvöld og geta endurheimt efsta sætið með sigri.
Samkvæmt heimasíðu KSÍ skipti leikmaður að nafni Ino Paalman yfir í KR þann 2.Júlí síðastliðinn. Leikmaðurinn kemur frá Hollandi en ég hef ekki meiri upplýsingar um hann. Samkvæmt heimasíðu KR mætti varnartröllið Sigurður Örn Jónsson á sína fyrstu æfingu hjá KR 1. júlí síðastliðinn, en hann efur ekkert geta æft með KR-ingum frá því í júlí á síðasta ári. Það verður mikill styrkur fyrir KR þegar Sigurður er orðinn heill.
Þór Akureyri - KR 0-2
0-1 Sigurður Ragnar Eyjólfsson
0-2 Arnar Jón Sigurgeirsson
———-
FH Í INTERTOTO
FH-ingar töpuðu 2-0 fyrir spánska liðinu Villareal í Intertotokeppninni í kvöld en leikið var á Spáni. Victor Fernandez skoraði fyrra mark heimamanna á 33. mínútur og Jesus Galvan skoraði síðara markið á 64. mínútu. Liðin mætast í síðari leiknum hér á landi á laugardaginn eftir viku.