STALLONE ER FRAMARI
Leikarinn S. Stallone sendi Fréttastjórn Framherja (stuðningsfélag Fram) skeyti nýverið og óskaði eftir upplýsingum um leikdaga liðsins, þar sem hann væri stuðningsmaður Fram! Þeir Framarar slóu á þráðinn til hans: “Ég millilenti hér á leiðinni yfir Atlantshaf árið 1985. Það virtist lítið um að vera í Reykjavík en þetta endaði með því að mér var boðið á knattspyrnuleik þar sem Fram var að spila. Ég heillaðist og hef haldið með liðinu síðan, þó ég viðurkenni að ég hef ekki getað fylgst alveg nógu vel með gengi þess síðustu árin,” segir Stallone. Knattspyrnuáhugann segir hann tilkominn vegna uppruna síns, en eins og flestir vita er Stallone ættin ítölsk. ”Ég spila stundum knattspyrnu við unga frændur mína og er þá gjarnan í Framtreyju sem ég keypti mér um árið. Ég var nú reyndar í honum undir æfingagalla í einni mynd og litlu munaði að hún sæist, en því miður reyndist þetta ekki passa og því fór sem fór,” segir Stallone. Aðspurður sagðist Stallone ekki vita hvenær hann kæmi til landsins en óskaði eftir að tekinn yrði frá miði fyrir hann í 8 eða undanúrslitum bikarkeppninnar. Sviðsleikarinn Silvestre Stallone, sem á frægan frænda vestanhafs sem leikur í kvikmyndum, kvaðst ekki hafa símanúmer hans í Hollywood, þegar eftir því var leitað
(Fram.is)
—
ÁSMUNDUR HÆTTUR MEÐ FRAM
Ásmundur Arnarson ákvað í vikunni að hætta að leika með Fram á þessu tímabili. Hann er mikill markaskorari og því væntanlega eftirsóttur. Annars er það að frétta úr herbúðum Fram að Eggert Stefánsson er væntanlegur aftur eftir erfið meiðsli.
—
SIGURVIN BESTUR
Sigurvin Ólafsson KR-ingur er leikmaður fyrsta þriðjungs úrvalsdeildar karla í knattspyrnu að mati íþróttafréttamanna. Þetta er mikil viðurkenning fyrir þennan frábæra leikmann sem hefur átt í erfiðum meiðslum undanfarin ár. Willum Þór Þórsson þjálfari KR var valin þjálfari þriðjungsins og Gylfi Þór Orrason dómari þriðjungsins. KR-ingar eiga flesta leikmenn í 11 manna úrvalsliði umferðanna 6, eða 3 talsins.
—
1.DEILD KARLA
Haukar lögðu Sindra 2-0 í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Valur er í efsta sætinu sem stendur og eru mjög líklegir til að spila í Úrvalsdeild næsta tímabil. Afturelding er í öðru sætinu.
—
POLLAMÓT OG ESSO-MÓT Á AKUREYRI
Veðrið leikur við knattspyrnumenn og konur á Akureyri þessa stundina en þar fara nú fram tvö af stærri knattspyrnumótum landsins. Annars vegar Esso-mót KA, þar sem um 1.200 drengir á aldrinum 11-12 ára etja kappi á félagssvæði KA og hins vegar Pollamót Þórs, þar sem karlar 30 ára og eldri og konur 25 ára eldri reyna með sér. Á báðum svæðum sjást glæsileg tilþrif en þó mega margir þátttakendur á Þórssvæðinu muna sinn fífil fegurri. Konum fer fjölgandi á Pollamótinu en karlarnir eru þó enn í miklum meirihluta. Tæplega 70 lið taka þátt í Pollamótinu að þessu sinni og því eru um 700 misþungir knattspyrnukappar að sprikla um Þórssvæðið í dag og á morgun.
(mbl.is)
—