Valsmenn töpuðu sínum fyrsta leik í sumar í gær þegar fjórir leikir fóru fram í 16 liða úrslitum bikarsins. Léku þeir á Ólafsfirði gegn Leiftri/Dalvík og komust heimamenn yfir á 16.mínútu en fram að því hafði fátt gerst. Það var Jón Örvar Eiríksson sem skoraði með skalla. Eftir þetta vöknuðu Valsmenn en náðu ekki að jafna fyrir hlé. Þeir léku undan vindi í seinni hálfleik og náðu fljótlega að skora og var þar að verki Sigurður Sæberg Þorsteinsson. Leiftur/Dalvík komst aftur yfir með marki úr vítaspyrnu og var það Árni Thor Guðmundsson sem sendur var á punktinn. Guðni Rúnar Valsmaður átti skot í þverslána eftir þetta. Valsmenn urðu síðan fyrir áfalli og misstu Stefán Jónsson útaf og heimamenn lönduðu sigrinum. Leiftur/Dalvík - Valur 1-0.
Skagamenn bundu enda á þátttöku Suðurnesjaliðanna í bikarkeppninni með því að slá Grindvíkinga út. Jafnræði var með liðunum og aðeins eitt mark skorað. Það kom á 26.mínútu og var það Ellert Jón Björnsson sem skoraði, en hann hefur líka skorað á móti nýkrýndum heimsmeisturum. Seinni hálfleikur var frekar bragðdaufur eftir ágætis fyrri hálfleik enda heimamenn aðeins í því að halda fengnum hlut. ÍA - Grindavík 1-0.
Fram vann sanngjarnan sigur á KR í gær og því er Vesturbæjarstórveldið úr leik. Magnús Ólafsson fékk þó ótrúlegt færi eftir 75 mínútur en náði með ótrúlegri óheppni að sparka knettinum í stöngina á marki Fram. Eina mark leiksins kom svo á 81.mínútu, Ágúst Gylfason skaut neðst í markhornið og Framarar komnir í 8 liða úrslitin. KR - Fram 0-1
Fyrstu deildar lið Breiðabliks tók á móti úrvalsdeildarliði Þórs frá Akureyri. Blikar skoruðu fyrsta markið eftir 25 mínútur, Árni K. Gunnarsson þrumaði knettinum í netið. Gamla brýnið Hlynur Birgisson jafnaði rétt fyrir hálfleik. Árni skoraði aftur fyrir Blika en 8 mínútum fyrir leikslok jafnaði Páll Gíslason og því þurfti að framlengja. Að lokum endaði leikurinn í vítaspyrnukeppni þar sem Breiðablik sigraði. Gísli Einarsson markvörður var hetja liðsins en hann varði tvær spyrnur og skoraði síðan úr einni. Ummæli Kristjáns þjálfara Þórs fyrir leikinn vöktu athygli en hann sagði að það ætti bara að vera formsatriði fyrir Þór að klára þennan leik. Annað kom á daginn og finnst mér að Kristján ætti að vera búinn að skilja hve lítill munur er á getu leikmann í A-deild og B-deild. Breiðablik - Þór 9-8.
Leikir í kvöld kl.19:15:
ÍBV - Þróttur í Eyjum
Fylkir - FH í Árbæ
Keflavík - ÍA 23 í Bítlabænum
Stjarnan - KA í Garðabæ