EGILL Í FRAM
Í dag var gengið frá félagaskiptum Egils Atlasonar úr KR yfir í Fram og mun Egill spila með Safamýrarstórveldinu fram til 15. ágúst en þá heldur hann til náms í Bandaríkjunum. Egill hefur að undanförnu spilað sem lánsmaður frá KR hjá Sindra. Hann var fyrir stuttu leystur undan samningi sínum við KR og fékk tilboð frá Grindavík, Fram og nokkrum 1.deildarliðum.
—
FH Í INTERTOTO
Á Laugardalsvelli á morgun mætast FH og Cementarnica í seinni leik liðanna í Intertoto keppninni en FH stendur vel að vígi. Leikurinn hefst kl. 16:00 og er miðaverð 1000 kr. en 16 ára og yngri fá frítt inn.
—
COCA COLA LEIKUR
Á www.cocacola.is er nú í gangi léttur og skemmtilegur leikur, þar sem þátttakendur spá fyrir um úrslit leikja í 16- liða úrslitum í Coca-Cola bikarsins, en þau hefjast þriðjudaginn 2. júlí næstkomandi. Veitt eru 3 stig fyrir að spá réttu liði sigri og 3 stig að auki fyrir að spá fyrir um rétta markatölu. Hægt er að hefja þátttöku í leiknum hvenær sem er en sá á mesta möguleika sem byrjar fyrir 16 liða úrslitin! Þú velur nafn á liðið þitt og hefur síðan leik!
—
HM VEISLA Í SMÁRALIND
Efnt verður til knattspyrnuhátíðar í HM-heiminum í Vetrargarðinum í Smáralind helgina í tilefni af lokaleikjum HM 2002. Hátíðarstemmning verður á staðnum, hljómsveitin Boogie Nights stígur á stokk, veitt verða verðlaun fyrir frumlegasta stólinn og frumlegasta búninginn, keppt verður í skothörku, nóg verður í gangi fyrir börnin, knattþrautirnar sívinsælu verða á sínum stað og margt fleira.
—
LYFJAPRÓF
4 leikmenn tveir úr hvoru liði KR og Fram voru teknir í lyfjapróf að loknum leik liðanna í Símadeildinni í síðustu viku. Þá voru einnig 4 leikmenn úr Val og Þrótti teknir í lyfjapróf og má vænta niðurstaðna eftir 4-5 vikur
—
RIKKI RÆÐIR VIÐ LILLESTRÖM
Ríkharður Daðason landsliðsmaður í knattspyrnu er sagður vera í viðræðum við norska liðið Lilleström en hann hefur leikið með Stoke City undanfarin tvö tímabil. Um þetta er meðal annars fjallað á vefsíðu Stoke og á vefsíðu norska blaðsins Verdens Gang í dag. John Rudge yfirmaður knattspyrnumála hjá Stoke segir að Stoke og Lilleström hafi komist að samkomulagi. Lilleström muni ekkert borga fyrir Ríkharð við undirskrift en greiðsla fyrir leikmanninn muni velta á því hversu marga leiki hann spilar fyrir norska liðið.
—
GUÐJÓN EFSTUR Á ÓSKALISTA VIKING
Norska dagblaðið Aftenbladet í Stafangri greinir frá því á fréttavef sínum í dag að Guðjón Þórðarson, fyrrverandi þjálfari Stoke City og íslenska landsliðsins, sé efstur á óskalista forráðamanna norska knattspyrnuliðsins Viking í Stafangri fyrir næsta keppnistímabil. Eitthvað hafa ættfræðiupplýsingar blaðsins þó misfarist því Guðjón er sagður faðir Eiðs Smára Guðjohnsen, leikmanns Chelsea.