Fréttamolar (Hitt og þetta) EGILL Í FRAM
Í dag var gengið frá félagaskiptum Egils Atlasonar úr KR yfir í Fram og mun Egill spila með Safamýrarstórveldinu fram til 15. ágúst en þá heldur hann til náms í Bandaríkjunum. Egill hefur að undanförnu spilað sem lánsmaður frá KR hjá Sindra. Hann var fyrir stuttu leystur undan samningi sínum við KR og fékk tilboð frá Grindavík, Fram og nokkrum 1.deildarliðum.



FH Í INTERTOTO
Á Laugardalsvelli á morgun mætast FH og Cementarnica í seinni leik liðanna í Intertoto keppninni en FH stendur vel að vígi. Leikurinn hefst kl. 16:00 og er miðaverð 1000 kr. en 16 ára og yngri fá frítt inn.



COCA COLA LEIKUR
Á www.cocacola.is er nú í gangi léttur og skemmtilegur leikur, þar sem þátttakendur spá fyrir um úrslit leikja í 16- liða úrslitum í Coca-Cola bikarsins, en þau hefjast þriðjudaginn 2. júlí næstkomandi. Veitt eru 3 stig fyrir að spá réttu liði sigri og 3 stig að auki fyrir að spá fyrir um rétta markatölu. Hægt er að hefja þátttöku í leiknum hvenær sem er en sá á mesta möguleika sem byrjar fyrir 16 liða úrslitin! Þú velur nafn á liðið þitt og hefur síðan leik!



HM VEISLA Í SMÁRALIND
Efnt verður til knattspyrnuhátíðar í HM-heiminum í Vetrargarðinum í Smáralind helgina í tilefni af lokaleikjum HM 2002. Hátíðarstemmning verður á staðnum, hljómsveitin Boogie Nights stígur á stokk, veitt verða verðlaun fyrir frumlegasta stólinn og frumlegasta búninginn, keppt verður í skothörku, nóg verður í gangi fyrir börnin, knattþrautirnar sívinsælu verða á sínum stað og margt fleira.



LYFJAPRÓF
4 leikmenn tveir úr hvoru liði KR og Fram voru teknir í lyfjapróf að loknum leik liðanna í Símadeildinni í síðustu viku. Þá voru einnig 4 leikmenn úr Val og Þrótti teknir í lyfjapróf og má vænta niðurstaðna eftir 4-5 vikur



RIKKI RÆÐIR VIÐ LILLESTRÖM
Ríkharður Daðason landsliðsmaður í knattspyrnu er sagður vera í viðræðum við norska liðið Lilleström en hann hefur leikið með Stoke City undanfarin tvö tímabil. Um þetta er meðal annars fjallað á vefsíðu Stoke og á vefsíðu norska blaðsins Verdens Gang í dag. John Rudge yfirmaður knattspyrnumála hjá Stoke segir að Stoke og Lilleström hafi komist að samkomulagi. Lilleström muni ekkert borga fyrir Ríkharð við undirskrift en greiðsla fyrir leikmanninn muni velta á því hversu marga leiki hann spilar fyrir norska liðið.



GUÐJÓN EFSTUR Á ÓSKALISTA VIKING
Norska dagblaðið Aftenbladet í Stafangri greinir frá því á fréttavef sínum í dag að Guðjón Þórðarson, fyrrverandi þjálfari Stoke City og íslenska landsliðsins, sé efstur á óskalista forráðamanna norska knattspyrnuliðsins Viking í Stafangri fyrir næsta keppnistímabil. Eitthvað hafa ættfræðiupplýsingar blaðsins þó misfarist því Guðjón er sagður faðir Eiðs Smára Guðjohnsen, leikmanns Chelsea.