Í dag fóru fram þrír leikir í Símadeild karla. Topplið KR hélt til eyja og lék gegn heimamönnum. KR var betri aðilinn í fyrri hálfleik en gégn gangi leiksins skoraði Tómas Ingi Tómasson 1-0 fyrir Eyjamenn á 45. mínútu eftir sendingu Gunnars Heiðars Þorvaldssonar. Markið fallegt og Tómas fagnaði því skemmtilega. Sóknarmaðurinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson braut á Hjalta Jóhannessyni á þriðju mínútu síðari hálfleiks. Siggi vissi upp á sig sökina og fékk að líta rauða spjaldið frá Gylfa dómara og KR-ingar léku því einum manni færri restina af leiknum. Bjarnólfur Lárusson bætti við öðru marki fyrir Eyjamenn á 70.mínútu. Hann átti þrumuskot af 25 metra færi en boltinn hafði reyndar viðkomu í varnarmanni KR og var óverjandi fyrir Kristján Finnbogason, markvörð KR. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði sitt fimmta mark í sumar og þriðja mark ÍBV eftir fyrirgjöf Atla Jóhannssonar. Markið kom á 87. mínútu og var seinasta mark leiksins. ÍBV vann glæsilegan 3-0 sigur á KR. Það hafði greinilega góð áhrif á heimamenn að Hlynur Stefánsson var kominn í vörnina á ný en hann hefur verið lánaður frá KFS og mun að ég held spila í vörn ÍBV út leiktíðina.
Það var mikið fjör í Árbænum þar sem Fylkir lék við Þór Akureyri. Lið Fylkis var óbreytt frá sigurleiknum gegn Grindavík en þrjár breytingar voru á liði Þórs frá því í síðasta leik. Óðinn Árnason, Páll Gíslason og nýliðinn Ashley Wooliscroft komu allir inn í liðið. Valur Fannar Gíslason kom Fylki yfir á 12. mínútu með hörkuskoti af u.þ.b. 30 metra færi efst í vinstra hornið. Þetta var fyrsta mark Vals fyrir Fylki en hann gekk til liðs við þá frá Fram fyrir leiktíðina. Aðeins tveimur mínútum eftir mark Vals bætti Sævar Þór Gíslason við öðru marki eftir sendingu Theódórs Óskarssonar sem hirti knöttinn eftir mistök í vörn Þórs. Jóhann Þórhallsson minnkaði muninn í 2-1 fyrir Þór á 28. mínútu með glæsimarki. Jóhann óð upp völlinn og tók fyrsta markskot Þórs í leiknum af 30 metra færi og boltinn endaði efst í markhorninu. Þess má geta að þetta var fyrsta markskot Þórs í leiknum. Theódór Óskarsson jók forystu Fylkis aftur í tvö mörk eftir aðeins 38 sekúndur í síðari hálfleik. Fylkismenn fengu aukaspyrnu og Hrafnkell Helgason náði að koma boltanum inn á teig þar sem Theódór tók við honum og skoraði. Eftir hornspyrnu Þórs á 50. mínútu barst boltinn út fyrir teiginn þar sem Ashley Wooliscroft tók við honum og þrumaði honum í netið frá vítateigslínu og minnkaði muninn í 3-2. Þess má geta fyrir þá sem spila Championship Manager að finna má Ashley í einhverju utandeildarliði í leiknum.
Athygli vakti að Þorvaldur Örlygsson þjálfari KA stillti sjálfum sér upp í byrjunarliðinu gegn Grindavík á Akureyrarvelli. Grindavík komst yfir með marki Vignis Helgasonar á 35. mínútu. Scott Ramsey átti fyrirgjöf og Vignir stökk manna hæst í teignum og skallaði boltann fram hjá Þórði Þórðarsyni í marki KA. Seinni hálfleikur var langt frá því að vera leiðinlegur en mörkin vantaði. Grindavík vann sér inn þrjú mikilvæg stig með 1-0 sigri á KA-mönnum. Annað kvöld mætast Fram og ÍA á Laugardalsvelli og hefst leikurinn kl.19:15. Leikur FH-inga færðist til vegna þátttöku þeirra í Intertoto keppninni.
ÍBV – KR 3-0
1-0 Tómas Ingi Tómasson (45)
2-0 Bjarnólfur Lárusson (70)
3-0 Gunnar Heiðar Þorvaldsson (87)
Fylkir – Þór 3-2
1-0 Valur Fannar Gíslason (12)
2-0 Sævar Þór Gíslason (14)
2-1 Jóhann Þórhallson (28)
3-1 Theodór Óskarsson (46)
3-2 Ashley Wooliscroft (50)
KA – Grindavík 1-0
1-0 Vignir Helgason (35)