Það var gríðarmikill hiti í Skopje í Makedóníu í gær þegar FH-ingar léku fyrri leik sinn gegn Cementarnica Skopje í 1.umferð Intertoto keppninnar. Það var enginn annar en Valdas Trakys sem kom FH yfir eftir hálftíma leik eftir glæsilegan undirbúning Jóns Þorgríms Stefánssonar. Undir lok fyrri hálfleiks fékk einn heimamanna rauða spjaldið fyrir að gefa Magnúsi Einarssyni olnbogaskot. Trakys var sko ekki hættur og í síðari hálfleik skoraði hann aftur, nú með skalla. Heimamenn náðu að minnka muninn í 2-1, en það var svo Guðmundur Sævarsson sem batt endahnútinn á þetta allt saman, lék á tvo varnarmenn og skoraði. Rétt fyrir leikslok fékk annar leikmaður heimaliðsins rauða spjaldið, og mun það hafa verið bróðir þess sem fékk fyrri brottvísunina!
FH stendur vel að vígi fyrir seinni leik liðanna sem verður á Laugardalsvellinum á Laugardaginn klukkan 16:00. Ef fer sem horfir þá mæta FH-ingar Villarreal frá Spáni í næstu umferð og það verður enginn smáleikur. Guðlaugur Baldursson aðstoðarþjálfari FH var að vonum ánægður með sigurinn: “Þetta var mjög góður leikur í miklum hita hér í Skopje. Okkar menn spiluðu vel, léku skynsamlega með áherslu á varnarleikinn, og það skilaði frábærum sigri,” sagði hann í viðtali við mbl.is.