Fréttamolar (Hlynur snýr aftur, Evrópuk. o.fl.) 1.DEILD KARLA
Vilhjálmur R. Vilhjálmsson setti þrennu fyrir Stjörnuna, þegar Garðarbæjarliðið gerði jafntefli við ÍR í Breiðholti í 1. deildinni í gærkvöldi, 3-3. Vilhjálmur skoraði öll mörkin beint úr aukaspyrnum. Valsmenn unnu Þróttara í skrautlegum leik 4-1 og markalaust var á Ólafsfirði í leik Leifturs/Dalvíkur og Víkinga.



FIMLEIKAFÉLAGIÐ Í MAKEDÓNÍU
Þegar þetta er skrifað eru FH-ingar að leika fyrri leik sinn við Cementarnica frá Makedóníu í Intertoto-keppninni í knattspyrnu. Leikurinn fer fram í Skopje, höfuðborg Makedóníu, og hófst kl. 14 að íslenskum tíma. Hann er spilaður á aðalleikvangi Makedóníu, Gradski, sem rúmar 22 þúsund áhorfendur. Heimavöllur Cementarnica í Skopje er ekki löglegur í Evrópukeppni. Seinni leikur liðanna verður í Kaplakrikanum eftir tvær vikur.



DREGIÐ Í EVRÓPUKEPPNIRNAR
Skagamenn höfðu ekki heppnina með sér í gær þegar dregið var til 1. umferðar í forkeppni meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Þeir drógust gegn Zeljeznicar Sarajevo, meistaraliði Bosníu, sem eflaust er sterkasta liðið af þeim tíu sem Íslandsmeistararnir gátu lent á móti. Takist Skagamönnum að leggja Zeljeznicar að velli bíður þeirra skemmtileg viðureign gegn norska Íslendingaliðinu Lilleström.

Leikmenn ÍBV drógust á móti sænska félaginu AIK frá Stokkhólmi í forkeppni UEFA-bikarsins í knattspyrnu. Fyrri leikur liðanna fer fram á heimavelli AIK í Solna í Stokkhólmi 15. ágúst og sá síðari hér á landi tveimur vikum síðar. Tveir af leikmönnum Svía í heimsmeistarakeppninni sem nú stendur yfir spila með AIK. Það eru varnarmaðurinn Teddy Lucic og sóknarmaðurinn Andreas Andersson.

Fyrsti leikur Fylkis í UEFA Cup keppninni gegn Belgíska liðinu Royal Excelsior Mouscron verði á Laugardalsvelli 15. ágúst. Excelsior komst í úrvalsdeild fyrir 4 árum og hafa yfirleitt endað um miðja deild. Excelsior varð í 5. sæti á síðasta tímabili en töpuðu fyrir Clup Brugge í úrslitum bikars og komast í UEFA Cup fyrir þann árangur. Belgíski landsliðsmaðurinn Mpenza er leikmaður Excelsior og markmaður þeirra var varamarkmaður landsliðsins á HM.



HLYNUR AFTUR Í ÍBV
ÍBV hefur fengið Hlyn Stefánsson að láni frá KFS fram til 15. október. Margir varnarmenn Eyjamanna eru meiddir og því gripu þeir til þess ráðs að fá Hlyn aftur til liðs við sig til að binda saman vörnina. Hlynur mun að öllum líkindum leika gegn KR-ingum á sunnudaginn kemur í Eyjum. Hann hefur verið einn af bestu mönnum Íslandsmótsins undanfarin ár og á því væntanlega eftir að styrkja lið ÍBV mikið í komandi leikjum