Í gær færðist Íslenska landsliðið í knattspyrnu kvenna skrefi nær því að leika um keppnisrétt á HM sem fram fer í Kína árið 2003. Ísland gerði markalaust jafntefli gegn Ítalíu á eyjunni Sardiníu og mun liðið þar með leika tvo leiki gegn Englandi síðsumars. Sigurvegari þess einvígis mætir sigurliðinu úr einvígi Dana og Frakka í tveggja leikja keppni um fimmta og síðasta sæti Evrópu á heimsmeistaramótinu á næsta ári. Það má því segja að úrslit gærdagsins séu einungis einn áfangi á lengri leið íslenska kvennalandsliðsins. Ísland hafnaði í öðru sæti í riðlinum sem var mjög sterkur. Rússar urðu í fyrsta sæti, en Ítalir og Spánverjar sitja eftir með sárt ennið.
Íslenska liðið lék skynsamlega í leiknum og var varnarleikurinn vel skipulagður. Íslenska liðið var mun sterkara í fyrri hálfleik og skapaði sér þá nokkur færi, meðal annars var bjargað á línu frá Katrínu Jónsdóttur. En í síðari hálfleik fóru Ítalirnir að sækja af krafti og bjargaði Ásdís Þorgilsdóttir meðal annars á línu seint í leiknum. “Þetta er stórkostlegur dagur fyrir íslenska kvennaknattspyrnu. Að ná öðru sæti í þessum feikisterka riðli sýnir að okkur að við eigum mjög gott landslið. Ég get alveg sagt þér að hjartað var farið að slá mjög ört undir lokin. Ég er bara hrærður. Þetta er stórkostlegur dagur fyrir stelpurnar. Þær hafa heldur betur unnið fyrir þessu. Þessi hópur sem ég er með í höndunum er hreint ótrúlega góður.” sagði Jörundur Áki landsliðsþjálfari við blaðamann Morgunblaðsins eftir leik.