
Íslenska liðið lék skynsamlega í leiknum og var varnarleikurinn vel skipulagður. Íslenska liðið var mun sterkara í fyrri hálfleik og skapaði sér þá nokkur færi, meðal annars var bjargað á línu frá Katrínu Jónsdóttur. En í síðari hálfleik fóru Ítalirnir að sækja af krafti og bjargaði Ásdís Þorgilsdóttir meðal annars á línu seint í leiknum. “Þetta er stórkostlegur dagur fyrir íslenska kvennaknattspyrnu. Að ná öðru sæti í þessum feikisterka riðli sýnir að okkur að við eigum mjög gott landslið. Ég get alveg sagt þér að hjartað var farið að slá mjög ört undir lokin. Ég er bara hrærður. Þetta er stórkostlegur dagur fyrir stelpurnar. Þær hafa heldur betur unnið fyrir þessu. Þessi hópur sem ég er með í höndunum er hreint ótrúlega góður.” sagði Jörundur Áki landsliðsþjálfari við blaðamann Morgunblaðsins eftir leik.