FH Í EVRÓPUKEPPNINNI
FH mætir FC Cementarnica frá Makedóníu í fyrri leik liðanna í 1. umferð Intertoto-keppninnar 22. júní næstkomandi, en leikurinn fer fram í Skopje. Heimaleikur FH-inga verður síðan leikinn viku síðar, 29. eða 30 júní. Cementarnica hafnaði í 3. sæti í makedónísku deildinni, líkt og FH í Símadeildinni 2001. Komist FH-ingar í gegnum 1. umferð mæta þeir spænska liðinu Villareal í 2. umferð, sem hafnaði í 15. sæti í spænsku deildinni. Þess má geta að meðal leikmanna spænska liðsins er Argentínumaðurinn Martin Palermo, sem vann sér það til frægðar fyrir nokkrum misserum að misnota þrjár vítaspyrnur í einum og sama leiknum.



DIAO LÉK Á ÓLAFSFIRÐI!
Salif Diao, miðjumaðurinn öflugi hjá Senegal sem er á leið til enska félagsins Liverpool, leikur eins og fleiri fyrir framan 40-50 þúsund áhorfendur á leikjunum á HM. Fyrir tveimur árum sáu 280 áhorfendur á Ólafsfjarðarvelli þennan sama Diao spila með liði sínu, Sedan frá Frakklandi, gegn Leiftri í Intertoto-keppninni. Diao spilaði þar allan leikinn en Sedan sigraði, 3:2, og samanlagt 6:2. Í liði Sedan þann dag var einnig félagi Diaos í landsliði Senegals, Moussa N'Diaye (númer 14), og auk þess einn af sóknarmönnum Kamerúns á HM, Pius N'Diefi (númer 11). Sá piltur skoraði í báðum leikjunum gegn Leiftri, eitt á Ólafsfjarðarvelli og tvö í Frakklandi.



ÍTALÍA - ÍSLAND Á MORGUN
Jörundur Áki Sveinsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, hefur tilkynnt hvaða leikmenn hefja leikinn gegn Ítalíu í undankeppni HM sem fram fer á Sardiníu á morgun. Ein breyting er á byrjunarliðinu frá því í sigurleiknum gegn Spáni, en Edda Garðarsdóttir er í leikbanni og Ásdís Þorgilsdóttir kemur inn í liðið í hennar stað. Leikurinn hefst klukkan 16.



1.DEILD KARLA
Valsmenn hreiðruðu betur um sig á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu í gær með því að sigra Víkinga á útivelli, 4-0. Magnús Már Lúðvíksson skoraði tvö fyrstu mörkin og Sigurbjörn Hreiðarsson og Arnór Gunnarsson bættu hinum tveimur við eftir sendingar Magnúsar. Þrjú síðari mörkin komu á fimm mínútna kafla fyrir miðjan síðari hálfleik. Valur er með 10 stig á toppnum en Afturelding er með 7 stig og Víkingur 6.



HM FOSTERS OG GRAS.IS
Laugardaginn 15. júní n.k. verður haldið heimsmeistaramót gras.is og Fosters í knattspyrnu og verður leikið á gervigrasinu í Kaplakrika. Mótið hefst eftir að síðasta leik í 16 liða úrslitum HM lýkur þennan dag. Leikið verður á hálfan völl og 7 manns í liði en leyfilegt er að skipta að vild um leikmenn. Hver leikur er 1x10 mínútur. Sigurliðið, heimsmeistarar gras.is fá að launum bikar til eignar, 5 kassa af Fosters bjór, geisladisk á mann frá Skífunni, út að borða á veitingastaðnum Amigos, bíómiða og fleira. Liðið í öðru sæti fær að launum 3 kassa af Fosters bjór geisladisk á mann frá Skífunni , bíómiða og fleira Liðið í þriðja sæti 2 kassa af Fosters bjór og geisladisk á mann frá Skífunni, bíómiða og fleira. Þátttökugjald fyrir hvert lið er kr. 10.000. Nú er um að gera að vera snar í snúningum og hóa í félagana og skrá liðið sitt á hansi@gras.is eða í síma 897 1037 milli kl.16 - 19. Frestur til að tilkynna þátttöku.rennur út þriðjudaginn 11. júní.



COCA COLA BIKARINN
Nú búið að draga í 32 liða úrslitum í Coca-Cola bikarkeppni karla í knattspyrnu. Bikarmeistarar Fylkis hefja titilvörn sína gegn Haukum og Íslandsmeistarar Skagamanna leika við HSH í Vesturlandsslag.

Aðrir leikir eru sem hér segir:
ÍA U23 - Víkingur
FH U23 - ÍBV
Fylkir U23 - Stjarnan
Keflavík U23 - Fram
Njarðvík - KA
KFS - KR
Tindastóll - Þór Akureyri
ÍR - Leiftur/Dalvík
Magni - FH
Sindri - Valur
Selfoss - Keflavík
BÍ - Grindavík
Fjarðabyggð - Breiðablik
Afturelding - Þróttur

Leikirnir fara fram 14. og 15. júní.